Sport

Kominn heim með ótrú­legt Ís­lands­met: „Fann fyrir miklum létti“

Aron Guðmundsson skrifar
Baldvin Þór Magnússon hljóp á frábæru nýju Íslandsmeti í Valencia á dögunum
Baldvin Þór Magnússon hljóp á frábæru nýju Íslandsmeti í Valencia á dögunum Vísir/Anton Brink

Hlauparinn Bald­vin Þór Magnús­son segist hafa átt nær full­komið hlaup er hann hljóp, fyrstur Ís­lendinga tíu kíló­metra götu­hlaup á undir tuttugu og átta mínútum í Valencia á Spáni og tryggði sér þar með þátt­tökurétt á stóru móti í sumar.

Af­rek Bald­vins gífur­legt en með hlaupinu í Valencia, upp á 27 mínútur og fjörutíu sekúndur ,bætti hann þáverandi Ís­lands­meti sitt, sem hann setti í fyrra um tæpa mínútu.

„Þetta var mjög sér­stakt hlaup. Það er ekki oft sem að maður fær að upp­lifa full­komið hlaup en ég myndi segja að þetta hlaup hafi komist mjög nálægt því,“ segir Bald­vin í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar.

„Í hópnum sem ég hljóp í voru mjög margir að eltast við sama tímann, svona rétt undir 27:50 sem er lág­markið sem þarf að ná fyrir Evrópu­meistaramótið í Birming­ham seinna á þessu ári. Veðrið var full­komið og æfingarnar síðustu þrjá til fjóra mánuðina fyrir mót höfðu gengið ótrú­lega vel. Ég fór í há­fjalla æfinga­búðir í tví­gang og það gekk mjög vel, allt small saman ein­hvern veginn og þegar það er raunin getur eitt­hvað svona gerst.“

Fann fyrir miklum létti

Er Bald­vin kom í mark í um­ræddu hlaupi mátti sjá hann grípa um höfuð sitt af undrun gagn­vart því að honum hefði tekist þetta, að hlaupa undir lág­markinu og á nýju stór­bættu Ís­lands­meti.

„Ég þurfti að vera mjög ró­legur allan tímann á meðan að hlaupinu stóð og þegar að komst í mark þá tóku til­finningarnar loks að streyma fram og ég hugsaði með mér: „þetta tókst.“ Fyrir þann tíma­punkt hafði ég bara aðal­lega verið hræddur um að eitt­hvað gæti komið upp á, þetta gæti allt í einu orðið rosa­lega erfitt eða hópurinn gæti farið að slíta sig frá mér. Ég fann fyrir miklum létti þegar ég komst í mark.“

Það voru fáir ef nokkrir aðrir en Bald­vin sem höfðu trú á því að Ís­lendingur gæti hlaupið tíu kíló­metra á undir tuttugu og átta mínútum á næstunni. Bald­vin hefur gert það að vana undan­farin ár að setja ný Ís­lands­met en í styttri hlaupum hefur hans sér­grein verið. Það er þó ekkert launungar­mál að það liggur vel fyrir hann að taka tíu kíló­metrana.

„Ég var bara aldrei búinn að leggja mig al­menni­lega fram í 10 kíló­metra­hlaupum, bæði hvað varðar æfingar og svo hvað varðar að reyna fyrir mér í svona sterkri keppni eins og Valencia hlaupið er. Þetta er hraðasta keppni í heimi. Ég myndi segja að þetta hafi allt verið að stefna í þessa átt hjá mér en ef þú hefðir spurt mig fyrir nokkrum árum síðan hvort ég myndi ein­hvern tímann geta hlaupið tíu kíló­metra á undir 28 mínútum þá hefði ábyggi­lega hikað.“

Þáttökuréttur í höfn á stóru móti

Á þessu nýja Ís­lands­meti náði Bald­vin lág­markinu fyrir Evrópu­meistaramótið í frjálsum íþróttum sem haldið verður í Birming­ham í ágúst seinna á árinu. Eins konar heima­mót fyrir Bald­vin sem býr á Bret­lands­eyjum og ef plön hans ganga eftir verður tíu kíló­metra hlaupið ekki eina keppnis­grein hans á um­ræddu móti.

„Ég ætla reyna ná lág­markinu fyrir fimm kíló­metra hlaup líka. Mun reyna gera það í júní/júlí. Þarf að hlaupa þá kíló­metra á undir 13:08 mínútum. Það er gott að vera kominn með tíu kíló­metrana í bankann, þá get ég líka undir­búið mig fyrir að hlaupa þá hratt í Birming­ham í miðjum ágúst­mánuði. Það væri erfitt vera enn að eltast við lág­markið í tíu kíló­metrunum og þurfa síðan að hlaupa þá aftur í ágúst. Núna get ég meira ein­blínt á að vera vel staddur til þess að virki­lega keyra á þetta þegar kemur að Evrópu­meistaramótinu í Birming­ham. Ég er búinn að búa á Eng­landi í ein­hver tuttugu og tvö ár, maður er alveg smá enskur, hálfur Breti.“

Baldvin Þór Magnússon hafði áður sett Íslandsmet í 10 km götuhlaupi í Rúmeníu á síðasta ári.Instagram/vinnym_99

Þriðja Íslandsmetið á RIG þriðja árið í röð?

Bald­vin er mættur hingað til lands til þess að keppa á Reykja­vík International Games seinna dag í 1500 metra hlaupi. Hann er ríkjandi Ís­lands­met­hafi í greininni og hefur síðustu tvö ár bætt Ís­lands­metið á mótinu.

„Það er svolítið öðru­vísi að fara núna inn í keppni sem stendur yfir í kannski þrjá og hálfa mínútu eftir að hafa síðast keppt í hlaupi í Valencia sem stóð yfir í rúmar tuttugu og sjö og hálfa mínútu. Þetta eru tuttugu og fjórar mínútur sem ég er að skera af í keppni. Ég veit að formið er gott, veit það verður stemning og keppnin er á Ís­landi. Það keyrir mig alltaf áfram. 

Þá eru sterkir kepp­endur að mæta til leiks frá Bret­landi, sterkir tvíburar og annar ungur þaðan. Ég tel það alveg ger­legt að stefna á Ís­lands­metið aftur þó ég sé ekki búinn að undir­búa mig jafn vel fyrir 1500 metrana eins og áður en ef formið er gott, stemningin góð, þá get ég alveg hlaupið 1500 metrana hratt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×