Lífið

Gæti vaknað einn daginn og ætlað á þing

Jón Þór Stefánsson skrifar
Stefán Einar Stefánsson gæti einn daginn ætlað á þing, en væri líka líklegur til að setjast að við ritstörf í franskri sveit.
Stefán Einar Stefánsson gæti einn daginn ætlað á þing, en væri líka líklegur til að setjast að við ritstörf í franskri sveit. Vísir/Vilhelm

Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður útilokar ekki að hann muni einn daginn skella sér í stjórnmálin og fara í framboð. Myndi hann skipta um starfsvettvang eða færa sig um set gæti valið þó einnig verið allt annað en pólitíkin. Hann myndi til að mynda hafa áhuga á að gerast rithöfundur í franskri sveit.

Þetta sagði Stefán Einar í viðtali í Bakaríinu á Bylgjunni í morgun.

Ætlar þú einhvern tímann á þing?

„Ég hef ákveðið að svara þessari spurningu eins heiðarlega og ég get. Fjölmiðlamenn, og flestir þeirra sem eru að pæla í pólitík segja „Nei, nei, nei. Ég er með spennandi verkefni og það kemur ekki til greina.“ Ég ætla ekki að útiloka neitt,“ segir Stefán Einar.

„Það getur vel verið að ég vakni einn daginn og hugsi: Nú ætla ég á þing! Eða, Nú ætla ég í borgarstjórn eða sveitarstjórn í Garðabæ, þar sem ég bý núna.“

Það eru þó ekki bara stjórnmálin sem heilla.

„Það getur líka bara verið eitthvað allt annað. Eins og hefur nú komið fram hef ég mikinn áhuga á víni. Ég á mér draum um að eignast litla íbúð í fallegu þorpi í Champagne-héraði. Ég er með nokkur þorp sérstaklega á skotskífunni hvað það varðar. Það er hægt að fá ódýrt húsnæði í þessum litlu þorpum. Þetta eru fjögur hundruð til sex hundruð manna þorp yfirleitt,“ segir Stefán Einar.

„Ég gæti alveg hugsað mér að ef einhvern tímann myndu skapast aðstæður til að flytja þangað og skrifa meira. Ég hef mjög gaman af skrifum. Ég hef skrifað bækur, og þýtt, og ritstýrt bókum. Hver veit nema að þegar ég verð þrotinn af kröftum eftir öll þessi átök af vettvangi Spursmála að ég gerist rithöfundur í franskri sveit?“

Í viðtalinu fór Stefán Einar um víðan völl. Hann ræddi meðal annars um bernskuna á Patreksfirði, námsárin í Reykjavík, og þætti sína Spursmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.