Skoðun

Frjáls­hyggja með fyrir­vara

Finnur Th. Eiríksson skrifar

Undanfarna áratugi hafa helstu stefnumál vinstri vængsins verið mótuð af hugmyndafræði sem er oft kölluð sjálfsmyndarpólitík. Fyrir rúmum áratug, þegar ég var enn sósíalisti, var ég ekki undanskilinn frá áhrifum þessarar hugmyndafræði. En ég varð fljótlega meðvitaður um að hún hafði afvegaleitt sósíalista frá verkalýðsbaráttunni sem hafði áður verið helsta baráttumál þeirra.

Eftir að ég yfirgaf sósíalismann færðist ég smám saman í áttina að efnahagslegri frjálshyggju. Í auknum mæli gerði ég mér grein fyrir að sjálfsmyndarpólitíkin hafði stuðlað að sundrun meðal sósíalista frekar en sameiningu. Frelsið til að hafna slíkum hugmyndum er eitt af því sem frjálshyggjan hefur fram yfir nútímasósíalisma. En það er ekki þar með sagt að ég hafi samþykkt öll sjónarmið frjálshyggjunnar.

Frjálshyggja sem gengur skrefi of langt

Árið 1992 gekk Ísland í Evrópska efnahagssvæðið (EES), viðskiptabandalag sem byggir á forsendum efnahagslegrar frjálshyggju. Raunar gengur frjálshyggja EES svo langt að ég á erfitt með að fella mig við bandalagið í sinni núverandi mynd.

Grunnstoð EES er hið svokallaða fjórfrelsi: Frjálst flæði fjármagns, varnings, þjónustu (til dæmis útibú erlendra fyrirtækja) og vinnuafls. Ég geri engar athugasemdir við fyrstu þrjú atriðin eins og þau eru skilgreind af EES. En fjórða atriðið gengur skrefi of langt.

Það liggur í augum uppi að möguleikar lítils eyríkis til að vakta eigin landamæri eru mun meiri en ríkja á meginlandi Evrópu. En geta Íslands til að vakta fólksflutninga var skert með inngöngunni í EES og enn frekar með inngöngunni í Schengen-samstarfið. Síðan þá hafa íslensk yfirvöld ekki haft fullnægjandi stjórn yfir landamærum Íslands.

Engu að síður væri hvorki raunhæft né gagnlegt að loka dyrunum algjörlega fyrir innflytjendum. Þeir sem hafa flutt til Íslands til að vinna sérfræðistörf eða stunda eigin rekstur, auk ferðamanna sem dvelja hér tímabundið, hafa að jafnaði auðgað samfélagið. En á skömmum tíma hefur fjöldi þeirra sem hefur flutt hingað frá efnaminni löndum margfaldast. Er rétt ályktað að þessi skyndilega aukning hafi haft neikvæð áhrif á samfélagið?

Ég gæti lagt fram ýmis ólík rök fyrir því að sú sé raunin, en í þetta sinn ætla ég að styðjast við sjónarhorn sem kemur, merkilegt nokk, frá vinstri væng stjórnmálanna.

Þáttur atvinnurekenda

Eftirfarandi fullyrðing gæti komið lesendum á óvart: Krafan um frjálst flæði vinnuafls er fyrst og fremst runnin undan rifjum atvinnurekenda, ekki vinstrisinna. Hvað á ég við með því? Svarið er einfalt. Atvinnurekendur (að minnsta kosti í ákveðnum starfsgreinum) bjóða eins lág laun fyrir hvert stöðugildi og þeir komast upp með. Þetta á sérstaklega við um láglaunastörf þar sem ekki er gerð krafa um menntun. Sá sem sættir sig við lág laun fær starfið.

Innflytjendur frá efnaminni ríkjum sætta sig við lág laun vegna þess að þeir þekkja ekki réttindi launþega á Íslandi og auk þess eru þeir vanir lágum launum í heimalandinu. Atvinnurekendur í ákveðnum starfsgreinum hafa því fjárhagslegan ávinning af því að hér dvelji fjöldi innflytjenda frá fátækum ríkjum. Ég endurtek, það eru atvinnurekendur sem hafa mestan hag af ótakmörkuðum aðgangi innflytjenda að Íslandi, ekki vinstrisinnar.

Þótt vinstrisinnar hafi undanfarin ár barist fyrir opnum landamærum liggja ekki fjárhagslegir hagsmunir þar að baki. Þeir hafa fórnað hagsmunum verkalýðsins fyrir nýja, innflutta hugmyndafræði: Sjálfsmyndarpólitíkina. Það hlýtur að vera hátindur kaldhæðninnar að vinstrið hafi í rauninni barist fyrir hagsmunum atvinnurekenda í þessu máli en ekki fyrir eigin hagsmunum.

Íslendingar undirboðnir

Stundum láta áðurnefndir atvinnurekendur í veðri vaka að það sé ógjörningur að fá Íslendinga til að vinna ákveðin störf (til dæmis ræstingar og aðhlynningu) og því þurfi stöðugt að auka fjölda vinnuafls frá efnaminni löndum. En þessi rök sneiða fram hjá mikilvægu atriði: Íslendingar unnu umrædd störf áratugum saman! Það var ekki fyrr en á tíunda áratugnum þegar hingað tók að streyma erlent vinnuafl sem Íslendingar hröktust frá þessum starfsgreinum.

Í stuttu máli voru Íslendingarnir undirboðnir af innflytjendum sem höfðu ekki hugmynd um virði vinnu sinnar. Íslendingar hafna þessum störfum í dag eingöngu vegna þess hversu illa launuð þau eru.

Vandi stéttarfélaga

Samningsstaða stéttarfélaganna byggir að miklu leyti á því að verkalýðurinn skilji rétt sinn og hafi tilfinningu fyrir því hvað teljist sanngjörn laun. Ef atvinnurekendur hafa óheftan aðgang að vinnuafli sem sættir sig við lág laun og þekkir ekki rétt sinn versnar samningsstaða stéttarfélaganna. Það er ekki við innflytjendur að sakast að þeir hafi verið sviknir um laun en það breytir því ekki að því meiri sem fjöldi þeirra er, því verri er samningsstaða stéttarfélaganna.

Þótt ég hafi af og til gagnrýnt stéttarfélögin hef ég enn samúð með grundvallarhlutverki þeirra. Það veldur mér því hugarangri að forysta þeirra sitji þegjandi hljóði um regluverk EES sem vinnur gegn baráttu þeirra.

Ástæður til að hafa áhyggjur

Að sjálfsögðu hefur ótakmarkaður flutningur vinnuafls milli ríkja einhverjar samfélagslegar afleiðingar. Ég hef persónulega áhyggjur af miklu álagi á innviði Íslands (til dæmis heilbrigðiskerfi, skóla og gatnakerfi) og langtímaáhrifum á íslenska menningu, sérstaklega á íslenska tungu.

En vinstrisinnar hafa einnig gildar ástæður til að hafa áhyggjur. Bilið á milli hinna ríku og fátæku á Íslandi mun halda áfram að aukast með fjölgun fólks frá efnaminni löndum. Samningsstaða stéttarfélaganna mun óhjákvæmilega verða veikari. Reglur EES, byggðar á efnahagslegri frjálshyggju, munu halda áfram að teygja sig inn á svið íslenska löggjafarvaldsins. Þegar allir þræðir eru dregnir saman er í raun mesta furða að vinstrimenn sem heild sitji þegjandi hljóði um þessar staðreyndir.

Lokaorð

Þrátt fyrir þennan fyrirvara er ég eftir sem áður frjálshyggjumaður. Frjálst flæði fjármagns, varnings og þjónustu mun halda áfram að auðga íslenskt samfélag. Það er einungis fjórða frelsið, frjálst flæði vinnuafls, sem gengur of langt. Hagvöxtur er til lítils ef samfélag fær ekki að stækka og breytast á eigin forsendum og eigin hraða.

Hvort sem það er frá vinstrisinnuðum eða hægrisinnuðum sjónarhóli, þá eru sterk rök fyrir því að of hátt hlutfall innflytjenda sé samfélaginu ekki til góða. Mögulega eykur ótakmarkað flæði vinnuafls hagvöxt að einhverju leyti, en íslenskt samfélag er annað og meira en töludálkar í bókhaldi. Það þarf að taka tillit til menningarlegra þátta og innviða sem lúta öðrum lögmálum en hagkerfið.

Áframhaldandi þátttaka Íslands í EES ætti að vera háð því að Ísland fái undanþágu frá kröfunni um frjálst flæði vinnuafls. Vitanlega, ef sú undanþága fengist, þyrftu atvinnurekendur að bíta í það súra epli að hafa minni aðgang að ódýru, innfluttu vinnuafli. En hagsmunir samfélagsins þurfa að ganga fyrir. Ísland hlýtur að hafa rétt á að forgangsraða þeim og setja ákveðin mörk þegar kemur að samningum við erlend ríkjasambönd.

Höfundur er fyrrverandi sósíalisti og núverandi frjálshyggjumaður (með fyrirvara).




Skoðun

Sjá meira


×