Handbolti

Segist hafa brugðist gegn Ís­landi: „Ég komst aldrei fram­hjá þeim“

Sindri Sverrisson skrifar
Felix Claar reynir að stöðva Janus Daða Smárason í leiknum í gær.
Felix Claar reynir að stöðva Janus Daða Smárason í leiknum í gær. EPA/Johan Nilsson

Felix Claar er ein helsta stjarna sænska landsliðsins í handbolta en hann náði bara að skora eitt mark gegn Íslandi í gær og var sjálfsgagnrýninn eftir átta marka tapið.

„Ég er ótrúlega svekktur út í sjálfan mig,“ sagði Claar við Expressen, einn helsta íþróttamiðil Svíþjóðar, en hann mátti sín lítils gegn magnaðri vörn íslenska liðsins í gær.

Claar spilar í Magdeburg og þekkir því vel til sumra af lykilmönnum íslenska liðsins. En á meðan að Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skiluðu sínu fyrir Ísland þá náði Claar aldrei að sýna sitt rétta andlit, þrátt fyrir að í íslensku vörnina vantaði enn einn liðsfélaga hans úr Madgeburg, Elvar Örn Jónsson.

„Ótrúlega vonsvikinn með sjálfan mig“

„Ég er ótrúlega vonsvikinn með sjálfan mig. Ég var engan veginn að standa mig í dag… ég get ekki svarað því hvers vegna. Ég næ engri ferð og það er ekkert flæði í þessu hjá mér í dag. Þannig að ég er virkilega vonsvikinn með að geta ekki hjálpað liðinu meira en ég gerði,“ sagði Claar sem skoraði aðeins eitt mark í leiknum.

„Ég kem inn [að vörninni] á lítilli ferð. Af hverju ég geri það? Ég hef ekki hugmynd. Ég var ekki með neitt flæði og ég komst aldrei framhjá þeim,“ sagði Claar sem hafði byrjað leikinn ansi illa því hann fékk strax tveggja mínútna brottvísun og fékk einnig á sig högg.

„Smá óheppni þar á móti Gísla tvisvar. En það er allt í lagi samt… ég náði ekki andanum í annað skiptið, svo var það nefið. En það er allt í lagi,“ sagði Claar.

Gísli Þorgeir Kristjánsson fór illa með liðsfélaga sinn hjá Magdeburg, Felix Claar, í gær. Hér reynir sá sænski að stöðva Gísla sem var hins vegar óstöðvandi.VÍSIR/VILHELM

Svíar vissu þó fyrir leikinn að vegna sigranna öruggu gegn Króatíu og Slóveníu þá mætti liðið við því að tapa leiknum. Þeir eru enn með örlögin í sínum höndum varðandi það að komast í undanúrslit og geta tryggt sér sæti þar með því að vinna Ungverjaland á morgun og Sviss á miðvikudaginn. Ekki er þó víst að það dugi til að ná efsta sætinu af Íslandi.

„Mér leið alls ekki svona fyrir leikinn. Ég var sjálfur á hárréttu spennustigi. Ég hafði mjög góða tilfinningu fyrir því að ef við myndum vinna þennan leik myndum við koma okkur í ótrúlega góða stöðu. En núna erum við undir meiri pressu í síðustu tveimur leikjunum,“ sagði Claar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×