Skoðun

Hættum að tala niður til barna og ung­menna

Ómar Bragi Stefánsson skrifar

Mikið afskaplega er ég orðinn þreyttur á umræðunni og stórum fyrirsögnum um hvað börn og ungmenni eru vonlaus, og þá sérstaklega drengir. Kunna ekkert, geta ekkert og verða ekkert.

Það er ömurlegt að horfa á og heyra í fullorðnu fólki tala svona til þeirra, jafnvel áhrifafólki sem er í ábyrgðarstöðum í samfélaginu sem við eigum að líta upp til. Þessi umræða er ekki til þess fallin að byggja upp eða styðja við þá sem á þurfa að halda. Þessi umræða hefur verið og er til skammar hjá öllum þeim sem svona hafa talað.

Það er svo einfalt að þykjast vita allt og hafa svör við öllu. Dæma aðra og reyna að upphefja sjálfan sig. Skella fram fullyrðingum sem jafnvel innihalda ekkert.

Ég hef alla mína tíð unnið með börnum og ungmennum. Þvílík forréttindi segi ég. Við eigum gríðarlega flotta einstaklinga sem eru frábærar fyrirmyndir. Við getum horft til íþróttanna, tónlistarinnar, leiklistarinnar og fjölmargra annarra listgreina. Við getum horft til matreiðslunnar og allskonar verklegra þátta. Við eigum einnig mikið að langskólagengnu ungu fólki sem tekið er eftir bæði hér heima og erlendis.

Allsstaðar eigum við og sjáum ungt fólk sem er að standa sig afburða vel á öllum sviðum. Tölum um þetta frábæra fólk.

En eflaust er hægt að gera betur í uppeldi barna okkar og ungmenna. Kannski ættum við, foreldrar, að líta í eigin barm og skoða þann tíma sem við höfum verið með og erum með börnum og ungmennum. Erum við kannski svo upptekin að við erum ekki með þau í fyrsta sæti.

Hættum að benda á kennara sem einhverja blóraböggla. Kennarar eiga betra skilið.

Hættum að tala niður til barna og ungmenna og þykjast vera með lausnir á öllu sem þeim viðkemur.

Börn okkar og ungmenni eiga betra skilið.

Höfundur er verkefnastjóri og framkvæmdastjóri móta UMFÍ.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×