Viðskipti innlent

Hækka loðnuráðgjöf í hátt í 200 þúsund tonn

Kjartan Kjartansson skrifar
Lítið sem ekkert hefur verið veitt af loðnu undanfarin tvö fiskveiðiár. Hafró leggur til þónokkra hækkun á þessu ári.
Lítið sem ekkert hefur verið veitt af loðnu undanfarin tvö fiskveiðiár. Hafró leggur til þónokkra hækkun á þessu ári. Eskja

Hafrannsóknastofnun leggur til að rúm 197 þúsund tonn af loðnu verði veidd á þessu fiskveiðiári. Upphaflega lagði hún til innan við fimmtíu þúsund tonna hámarksafla.

Ráðgjöfin byggir á niðurstöðum loðnumælinga sem fóru fram í síðustu viku. Fimm skip tóku þátt í mælingunum á stóru svæði norðvestur, norður, norðaustur og austur af landinu, að því er kemur fram í tilkynningu Hafró.

Loðnuafli á síðasta fiskveiðiári nam aðeins um 9.400 tonnum og var enginn árið áður. Þó að tillaga Hafró sé umtalsverð hækkun frá því á síðasta fiskveiðiári er ráðgjöfin mun lægri en 2022 til 2023 þegar hún lagði til um 460.000 tonna hámarksafla.

Óljóst er hvort loðnan norðvestan við land fari fyrir Horn og hrygni vestan við landið, hrygni norðan við land eða fari hefðbundna leið austur fyrir landið og mun Hafrannsóknastofnun kanna það með leiðangri í febrúar.

„Á meðan óvissa ríkir um göngu loðnunnar fyrir Norðvesturlandi til hrygningar vill stofnunin mælast til að veiðar fari fram fyrir Norðurlandi líka en ekki eingöngu á þeim stofnhluta sem er þegar kominn austur fyrir land,“ segir í tilkynningu Hafró.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×