Skoðun

Ríkis­stjórnin ræður ekki við verk­efnið

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Í marga mánuði höfum við heyrt að planið sé að virka. Við höfum heyrt að verðbólgan sé loksins á niðurleið og ríkisstjórnin hafi náð tökum á ríkisfjármálunum. Staðreyndirnar segja aðra sögu. Verðbólgan mælist 5,2 prósent í janúar. Hún eykst milli mánaða og fer langt fram úr svartsýnustu spám greiningaraðila.

Þetta eru ekki góð tíðindi. En þau koma því miður ekki á óvart.

Ástæða aukningarinnar er skýr. Hún liggur ekki í utanaðkomandi áföllum, markaðssveiflum eða ófyrirséðum atburðum. Hún liggur í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun um að auka verðbólgu með gríðarlegum skattahækkunum og óafsakanlegri aukningu ríkisútgjalda. Um áramótin tóku gildi umfangsmiklar skatta- og gjaldahækkanir sem hafa bein áhrif á vísitölu neysluverðs. Þar má nefna kílómetragjald á allar tegundir ökutækja, breytingar á vörugjöldum á bíla, niðurfellingu rafbílastyrks og hækkun krónutölugjalda langt umfram verðbólgumarkmið.

Þetta þarf ekki að vera svona

Við Sjálfstæðismenn vöruðum ítrekað við þessari þróun. Sama gerðu fulltrúar atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Bent var á að málin væru illa unnin, útreikningar ófullnægjandi og áhrifin vanmetin. Með sínu alkunna yfirlæti hundsaði ríkisstjórnin þessar aðvaranir. Leyfið okkur að stýra landinu – við erum með stjórn á ástandinu, var sagt.

Þetta þarf ekki að vera svona og það er pólitísk ákvörðun að stækka báknið. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól lögðum við Sjálfstæðismenn til hagræðingartillögur upp á um 40 milljarða króna og skattalækkunartillögur upp á 32 milljarða króna. Allt fellt af ríkisstjórninni, og nú sitjum við uppi með stöðu þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar sjálfrar eru orðnar helsti verðbólguvaldurinn.

Þetta er grafalvarlegt. Ríkisstjórn sem lofaði að berja niður verðbólgu og vexti er sjálf farin að kynda undir þeim. Þegar stjórnvöld gera breytingar sem einar og sér bæta í verðbólguna er ekki hægt að tala um annað en stefnu sem hefur mistekist.

Á sama tíma er ríkissjóður rekinn með fullkomnu aðhaldsleysi. Ríkisútgjöld jukust um 143 milljarða króna á milli ára. Það jafngildir um 9 prósenta aukningu í umhverfi þar sem verðbólga hefur verið á milli 4 og 5 prósent. Þetta er með öllu ósjálfbær þróun. Forsenda þess að ná niður verðbólgu er að draga úr ríkisútgjöldum. Ljóst er að þessi mikli útgjaldaauki ríkisins muni hvorki hjálpa til við að ná verðbólgunni niður né hallalausum fjárlögum.

Tekið úr vasa heimilanna

Ríkið aflar ekki eigin tekna. Allar tekjur þess koma frá fólki og fyrirtækjum. Þegar ríkisútgjöld eru aukin með þessum hætti er verið að taka meira fé úr vösum heimilanna. Ef það er ekki gert með beinum sköttum, þá er það gert með verðbólgu sem étur upp kaupmátt og heldur vöxtum háum.

Afleiðingarnar eru þegar farnar að birtast. Heimilin finna fyrir hækkandi verðlagi, þyngri greiðslubyrði og aukinni óvissu. Atvinnuleysi er farið að aukast og nýlega var tilkynnt um hópuppsagnir hjá stórum fyrirtækjum. Heldur ríkisstjórnin virkilega að fólk sem hefur misst vinnuna hafi svigrúm til að bíða eftir því að planið fari einhvern tímann að virka?

Ríkisstjórnin hefur jafnframt farið fram með blekkingum. Hún kallaði eftir hagræðingartillögum frá almenningi og fékk þúsundir ábendinga. Ekki er að sjá að ein einasta tillaga hafi ratað inn í fjárlögin. Ekki ein einasta. Ef einhversstaðar var hagrætt, var því jafnóðum eytt annars staðar. Útgjaldaaukningin í fjárlögum sýnir það svart á hvítu. Þetta er ekki raunveruleg tiltekt heldur frasapólitík og sýndarmennska.

Það skiptir engu hversu oft ráðherrar endurtaka að planið sé að virka. Almenningur sér í gegnum það. Markaðurinn sér í gegnum það. Tölurnar segja sína sögu.

Verðbólgan eykst vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta er alfarið á ábyrgð hennar. Ríkisstjórn sem lofaði stöðugleika hefur skapað óstöðugleika. Ríkisstjórn sem lofaði að létta byrðar heimilanna hefur aukið þær. Það er ríkisstjórn sem ræður ekki við verkefnið.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins. 




Skoðun

Sjá meira


×