Handbolti

„Megum ekki gleyma því að við erum frá­bærir líka“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gísli Þorgeir hefur verið frábær á Evrópumótinu til þessa og það mun mikið á honum mæða í undanúrslitaleiknum gegn Dönum í kvöld.
Gísli Þorgeir hefur verið frábær á Evrópumótinu til þessa og það mun mikið á honum mæða í undanúrslitaleiknum gegn Dönum í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara geðveikt. Það er gaman að koma inn í höllina og finna aðeins andrúmsloftið sem verður hérna á næstu dögum,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við Vísi þegar hann var tekinn tali skömmu fyrir æfingu landsliðsins í Herning í gær.

Ísland mætir Danmörku í undanúrslitum á EM í Herning í kvöld. Landsliðið mætir til leiks eftir að hafa spilað sjö leiki á undanförnum 13 dögum, þar á meðal tvo leiki á um það bil einum sólarhring, við Sviss og Slóveníu í milliriðli í vikunni.

Klippa: Gísli ræðir miðamál, Dani og frábært íslenskt lið

Hvernig er staðan á mönnum eftir svona átök?

„Skrokkurinn er svo sem fínn. En maður þarf að fá góðan svefn og halda einbeitingu hvað varðar endurhæfingu svo það gangi sem best,“ segir Gísli Þorgeir.

Kúnstin að rétta sig af

Ísland mætir til leiks eftir skrautlegan milliriðil þar sem skiptist á skini og skúrum. Tvisvar missti liðið örlögin úr eigin höndum, með tapi fyrir Króötum og svo jafntefli við Sviss. Á milli þeirra leikja kom stórkostlegur sigur á Svíum og svo gegn Slóvenum til að tryggja sætið.

Gleðin var eðlilega mikil eftir sigurinn á Slóvenum en nú þarf að stilla sig af fyrir risastóra verkefnið sem bíður í kvöld.

„Auðvitað erum við mjög glaðir en svo er ákveðin kúnst. Þetta er mjög stór leikur og þetta verður auðvitað eitt erfiðasta verkefni sem lið getur fengið upp í hendurnar,“ segir Gísli og bætir við:

„Þeir hafa sýnt og sannað að þeir hafa verið gott sem óstöðvandi. Það er bara staðreynd. En þetta er verkefni sem ég er mjög spenntur að takast á við og vonandi að við getum strítt þeim almennilega.“

Ekki bara Danir sem eru góðir í handbolta

Nú kemur að einu strembnasta verkefni sem býðst; að mæta heims- og Ólympíumeisturum Dana á þeirra heimavelli með nánast enga Íslendinga í höllinni.

Gísli segir ekki mega gleymast hversu frábært íslenska liðið er, þó Danir séu vissulega líklegri fyrir fram.

„Auðvitað eru þetta frábærir handboltamenn. En við megum ekki gleyma því að við erum frábærir handboltamenn líka. Við settum ákveðinn standard með þessum Svíaleik,“

„Með þannig frammistöðu getum við átt mjög góða möguleika gegn þessu danska landsliði. Ef við sýnum sömu geðveiki og erum á sama tíma klókir, þá eru okkur allir vegir færir,“ segir Gísli.

Fleira kemur fram í viðtali við Gísla sem sjá má í spilaranum.

Ísland mætir Danmörku klukkan 19:30 í Boxen í Herning í kvöld. Íþróttateymi Sýnar mun fylgja landsliðinu eftir og koma stemningunni vel til skila í fréttatímum Sýnar sem og á Vísi í allan dag.


Tengdar fréttir

„Aðrir sjá um að tuða yfir því“

Þrátt fyrir misheppnaða rútuferð, aukið álag, miðamál í ólestri er Bjarki Már Elísson helst spenntur fyrir því að takast á við Dani í undanúrslitum á EM í dag. Það hefur ekkert upp á sig að spá í hitt bullið.

„Þetta eru bara menn sem vilja mikið og meira“

Íslenska karlalandsliðið í handbolta ætlaði sér í undanúrslit á Evrópumótinu og nú þegar því markmiði er náð er hætta á að hungrið vanti til að fara enn lengra. Sérfræðingarnir í Bestu sætinu veltu þessu fyrir sér.

„Þetta er bara einn af mönnum mótsins hingað til“

Elliði Snær Viðarsson hefur átt tvo mjög flotta leiki í sókninni í röð og verið markahæstur hjá íslenska landsliðinu í þeim báðum. Hann skoraði átta mörk úr níu skotum á móti Sviss og fylgdi því eftir með átta mörkum í níu skotum í sigrinum á Slóvenum. Elliði fékk líka hrós frá sérfræðingunum í Besta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×