Skoðun

Stúka við Kórinn mun skera niður fram­tíð HK í fót­bolta!

Ómar Stefánsson skrifar

Að byggja stúku sem minnkar æfingasvæðið fyrir yngri iðkendur HK er skref afturábak. Við eigum að huga að framtíð HK, ekki þrengja að henni. Í

Því skipulagi sem nú liggur fyrir, að setja stúku á grasinu á Kórnum, er ljóst að hún mun taka of mikið af því æfingasvæði sem hægt er að nota í Kórnum. Þessi tillaga er því alveg skelfileg og verður vonandi stöðvuð sem fyrst. Það eru nokkur atriði sem þarf að taka meira tillit til áður en ráðist er í framkvæmd á stúku við Kórinn.

1. Að núverandi æfingasvæði, sem notað er að lang mestum hluta af yngri iðkendum HK, mun minka um meira en hálfan knattspyrnuvöll.

2. Að það æfingasvæði sem eftir væri mun ekki nýtast eins vel.

3. Það má gera ráð fyrir að krafa verði um nýtingu á keppnisvellinum sem fylgir reglum sem eru í leyfiskerfi UEFA Quality.

4. það má gera ráð fyrir því á næstu árum komi VAR til landsins og þá þarf að gera ráð fyrir því umfangi sem fylgir og auknar kröfur fyrir aðstöðu fjölmiðla sem mun þá minnka svæðið fyrir áhorfendur.

5. Að byggja stúku sem ekki tekur fleira fólk í sæti en þær stúkur sem eru nú til staðar í Kópavogsbæ er hreint út sagt mistök. Sérstaklega í ljósi þess að þegar HK verður enn fjölmennara félag, verður ósk um pláss fyrir fleiri áhorfendur. Það er hægt að leysa með stærri stúku við Kópavogsvöll.

Núverandi meirihluti segir að verið sé að efna gamalt loforð frá bæjarstjórn síðan 2013. Það vill nú svo til að ég var í meirihluta í bæjarstjórn 2013 og vil taka fram að þetta er ekki loforð, þetta er viljayfirlýsing. Sem betur fer er hægt að skipta um skoðun og gera betur. Við verðum að horfa lengra fram í framtíðina, þar sem þetta verður mannvirki sem verður byggt til notkunar í áratugi.

Í dag segi ég því að byggja stúku sem á að taka ekki fleiri áhorfendur en nú er þegar til staðar inni í Kórnum er tímaskekkja. Það er hægt að gera mun betur. Ekki ætti að minnka það svæði sem er til fyrir æfingar og leiki á því gras svæði sem nú er í Kórnum. Því ætti einfaldlega að sleppa því að byggja stúku þarna.

Það er ekki lengra síðan en 2007 að HK náði að halda sér upp í efstu deild og Víkingar féllu niður. En árið 2024 þegar HK féll úr efstu deild þá unnu Víkingar sér inn tæpan milljarð króna með þátttöku í Evrópukeppni. En á því ári fengu Víkingar undanþágu til að spila á Kópavogsvelli.

En hægt væri að breyta úti grasvöllunum í Kórnum í gervigras og nýta hvern fermetra enn betur en gert er í dag. Á næstu árum mun fjölga enn frekar fólki í nágrenni við Kórinn, sem þýðir enn fleiri iðkendur í íþróttum hjá HK. Þess vegna á að gera betur og huga að því að yngri iðkendur hafi kost á því besta sem Kórinn hefur uppá að bjóða, í stað þess að byggja þar stúku, sem nýtist alls ekki eins vel fyrir alla HK-inga. Því það allra mikilvægasta er að það verði til staðar aðstaða fyrir alla iðkendur í HK. Gerum betur.

Höfundur  er fyrrverandi bæjarfulltrúi og heiðursfélagi HK




Skoðun

Sjá meira


×