Skoðun

Reykja­víkur­borg er ramminn, ekki mál­verkið

Björg Magnúsdóttir skrifar

Næsti kafli Reykjavíkur snýst um að endurheimta traust borgarbúa. Það er kominn tími á önnur vinnubrögð, ferskar hugmyndir, nýja kynslóð. Öll þekkjum við vandamálin – leikskólarnir, umferðin, lóðaskorturinnn, útþanið báknið og óþarfi að tönglast á þeim einu sinni enn. Borg sem hefur þessi lykilatriði ekki í forgangi hefur misst sjónar af hlutverki sínu. Ef við réttum ekki kúrsinn heldur traust til borgarstjórnar áfram að vera ofan í kjallara.

Eldur mannlífsins kemur að neðan

Frjálslyndi er eitt af lykilstefjum okkar í Viðreisn. Og hvað er frjálslyndi? Það þýðir ekki bara umburðarlyndi, heldur er það líka andstæðan við stjórnlyndi. Í dag lætur borgin ekkert mannlegt sér óviðkomandi og reynir að hafa vit fyrir fólki eins og langt leiddur meðvirknissjúklingur. En hinn sanni eldur mannlífsins kemur ekki að ofan, heldur að neðan, frá fólkinu sjálfu – sjálfsprottinn, náttúrulegur og frjáls. Við skulum hugsa okkur borgina eins og lifandi málverk. Gott kerfi á ekki að taka pensilinn af fólkinu, heldur sjá til þess að ramminn haldi.

Næsti kafli er borg sem við elskum

Þetta er hið sanna hlutverk Reykjavíkurborgar. Hún er traustur og fallegur rammi utan um daglegt líf okkar. Hún er til staðar þegar við þurfum á henni að halda. Hún þvælist ekki fyrir að óþörfu, heldur auðveldar okkur tilveruna. Næsti kafli Reykjavíkur er borg sem þekkir eigin spegilmynd aftur – borg sem við elskum og erum stolt af.

Höfundur er í framboði til oddvita Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×