Handbolti

FH þarf að ferðast til Rússlands til að fara í vítakeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Sigfússon, þjálfari FH. vísir/ernir
FH þarf að fara í vítakastkeppni við St. Petursburg til að knýja fram úrslit í viðureign liðanna í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta. FH-ingar þurfa því að ferðast til St. Pétursborgar til þess eins að fara í vítakeppni. Í yfirlýsingu EHF kemur þó ekki fram hvenær vítakeppni á að fara fram.

FH og St. Petursburg mættust í Rússlandi á sunnudaginn og komust FH-ingar áfram þrátt fyrir 37-33 tap. Fimleikafélagið vann fyrri leikinn í Kaplakrika 32-27 og einvígið því 65-64 samanlagt.

St. Petursburg kærði framkvæmd leiksins en eftirlitsmaðurinn frá Finnlandi var ekki með á hreinu hvort grípa ætti til framlengingar eða vítakeppni eftir venjulegan leiktíma.

Staðan að loknum venjulegan leiktíma var 32-27 og staðan í einvíginu því jöfn, 59-59. Samkvæmt reglum EHF hefði þá átt að grípa til vítakeppni til að knýja fram úrslit. Í stað þess var farið í framlengingu sem FH-ingar unnu, 6-5, og komust því áfram, samanlagt 65-64.

Nú hefur evrópska handknattleikssambandið komist að þeirri niðurstöðu að knýja þurfi fram úrslit í viðureigninni með vítakeppni sem mun fara fram í Rússlandi. EHF mun þó borga allan kostnað FH vegna ferðalagsins.

FH hefur til morguns til að áfrýja niðurstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×