Innlent

Engar aðgerðir að sinni

Kennarar ætla ekki að grípa til aðgerða vegna meintra verkfallsbrota að sinni, af tillitssemi við börnin. Þeir segja fyrirtæki standa fyrir kennslu í íþróttahúsi í Mosfellsbæ, sem sé klárt verkfallsbrot, og svíður sárt að þar skuli starfa nemi í Kennaraháskólanum. Í verkfallsmiðstöð grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu í Borgartúni koma á þriðja hundrað verkfallsverðir við daglega til að skipuleggja aðgerðir og bera saman bækur sínar. Það var því mikið um að vera í verkfallsmiðstöðinni í dag þegar fréttastofan leit þar við. Starfið er þrautskipulagt og kennararnir fara með sérstakar skýrslur í skóla og á þá staði þar sem er barnagæsla, og skila þeim svo til verkfallstjórnar. Sumir voru að fara út í eftirlitsferð en aðrir að koma inn með skýrslur. Svava Pétursdóttir, formaður verkfallsstjórnar, segir kennara ekki ætla að grípa til aðgerða vegna meintra verkfallsbrota að sinni, af tillitssemi við börnin. Það sé líka nóg að gera í öðru. Börnin voru með í verkfallsvörslunni eins og gengur, enda enginn skóli í dag. Sumir sátu að tafli eða spilum en aðrir voru einfaldlega að spjalla saman. Ásdís Ólafsdóttir, kennari og einn verkfallsvarða, segir Atlanta hafa leigt íþróttasalinn í Mosfellsbæ til að kenna börnum og sá sem séð hafi um kennsluna sé nemi í Kennaraháskólanum. Ásdís segist harma það mjög. Hún vonar að verkfallið leysist sem fyrst en segir að þverhausar séu í báðum liðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×