Erlent

Fjölskyldugildi skiptu sköpum

Hvers vegna urðu úrslit bandarísku forsetakosninganna sem raun ber vitni? Svo virðist sem gömul trúarleg fjölskyldugildi hafi í raun verið stærsta kosningamálið - ekki Íraksmálin. Það kom stjórnmálaskýrendum á óvart að þegar kannað var eftir kosningarnar hvað skipti mestu máli þegar fólk tók ákvörðun var algengasta svarið ekki baráttan gegn hryðjuverkum og stríðið í Írak, heldur siðferðisleg gildi. Þar á eftir komu efnahagsmál og svo utanríkismálin. Margir drógu í efa að þetta gæti verið rétt en nú eru stjórnmálaskýrendur og flokksleiðtogar almennt sammála um að um leið og repúblikanar hafi haldið forskoti sínu hvað varðar varnarmál landsins, hafi þeir unnið talsvert fylgi með því að leggja áherslu á hina gamaldags bandarísku fjölskyldu - meðal annars með því að leggja áherslu á andstöðu við fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra. Samhliða forsetakosningunum var kosið um bann við hjónaböndum samkynhneigðra í ellefu ríkjum og var það samþykkt í þeim öllum. Eitt af þessum ríkjum var Ohio, lykilríkið í kosningunum. Þegar borgarstjórinn í San Fransisco leyfði hjónabönd samkynhneigðra skapaði það mikla umræðu í landinu. Stjórnmálaskýrendur telja að það, ásamt öðru er varðar siðferðisleg gildi, hafi ýtt undir kjörsókn repúblikana, sérstaklega þeirra mjög hægrisinnuðu og sérstaklega í lykilríkinu Ohio þar sem Bush vann með 136 þúsund atkvæðum. Þannig virðist það hafa borið árangur hjá repúblikönum að nota andstöðu sína gegn hjónaböndum samkynhneigðra í kosningabaráttunni. Baráttumönnum fyrir réttindum samkynhneigðra er brugðið og segja samkynhneigða vægast sagt sára yfir úrslitunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×