Sport

Týndu synirnir komnir heim

Grétar Sigfinnur Sigurðsson og Viktor Bjarki Arnarson skrifuðu í gær undir nýja samninga við Víking Reykjavík til ársloka 2007. "Það er mjög ánægjulegt að búið sé að ganga frá málum varðandi þessa leikmenn og ljóst að nú styrkist leikmannahópurinn til muna en hann var ágætur fyrir. Víkingur gerði rétt með því að lána þá síðasta sumar, nú er liðið komið aftur upp og fær leikmennina sterkari til baka," sagði Magnús Gylfason, þjálfari Víkinga, með bros á vör eftir undirskriftina.

Eins og kunnugt er léku báðir leikmennirnir í Landsbankadeildinni síðasta sumar á lánssamningum hjá Val og Fylki og lýstu yfir áhuga sínum að halda þar áfram. Víkingar lögðu þó allt í að fá þá aftur til sín og varð þeim að ósk sinni.

Víkingar ætla sér stóra hluti næsta sumar og var það gefið út að stefna liðsins sé að vera í efri helmingnum næsta sumar. "Markmiðið er að gera Víking að stöðugu úrvalsdeildarliði og því markmiði þarf að ná áður en við hugsum lengra. Við ætlum að styrkja leikmannahópinn enn frekar, við erum farnir að horfa út fyrir landsteinana en erum ekkert að flýta okkur í þeim efnum. Styrkur okkar liggur í vörninni og við erum helst að horfa til þess að styrkja okkur fram á við," sagði Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×