Innlent

Ekki má halla á einstaka hópa

MYND/E.Ól
Framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands segir að kostnaður ríkisins vegna samninga Bandalags háskólamanna sé töluvert meiri en samið hafi verið um á almennum vinnumarkaði. Hann segir að tryggja verði að ekki halli á einstaka hópa.  Frá 1. maí árið 2006 hækka lægstu laun aðildarfélaga BHM upp í 200 þúsund krónur, samkvæmt nýjum kjarasamningi sem gerður hefur verið við ríkið, og gildir til 30. apríl árið 2008. Áfangahækkanir sem samið var um eru þær sömu og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði en ríkið metur heildar kostnaðaraukninguna á 19,83%. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, bendir á að þegar verðbólga fari af stað þá sé eðlilegt að endurskoða samninga. Hann segir að ef í ljós komi að meira verði til skiptanna en Alþýðusambandið gerði ráð fyrir við gerð almennra kjarasamninga, þá sé rétt að endurskoða samninga og tryggja að félagsmenn fái hlutdeild í því. Kostnaðarlega liggur þessi samningur hærra en almennu samingar ASÍ frá því í fyrravor en á því kunna að vera þær skýringar að verðbólga er snöggtum meiri núna og gert var ráð fyrir á samingstímabilinu að sögn Gylfa. Það geti gert að verkum að kaupmáttarmarkmið þeirra samninga hafi ekki verið að nást og kann að skýra það að menn taki tillit til þess í nýjum samingum. Aðalatriðið í þessu er að ekki halli mikið á einstaka hópa að sögn Gylfa og bætir við að samkvæmt forsendum ASÍ hafi verið gert ráð fyrir að kaupmáttur launafólks myndi hækka jöfnum skrefum á samningstímabilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×