Innlent

Dæmdur fyrir sama brot

Ungur bifhjólamaður, sem lögreglan stöðvaði með því að aka í veg fyrir hann, var í dag sýknaður af því að hafa brotið af sér á þeim tíma. Hann var hins vegar dæmdur fyrir brot fyrr um kvöldið sem annar maður hefur gengist við og gert dómsátt. 

Maðurinn var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fundinn sekur um að hafa ekið vélhjóli á 119 km hraða vestur Sæbraut að kvöldi 31. maí í fyrra. Hann kveðst ósáttur við að hafa verið dæmdur fyrir brot sem viðurkennt sé að annar maður hafi framið. 

„Ég er í rauninni dæmdur fyrir hans brot vegna þess að það er ómögulegt að mæla tvö ökutæki með einni ratsjá,“ segir hann í samtali við fréttastofu. 

Hann segir lögreglumennina sem gerðu mælinguna hafa verið staðna að rangfærslum fyrir rétti og því mjög vafasamt að tekið skuli fullt mark á vitnisburði þeirra. Hann ætli ekki að una dómnum að þessu leyti. 

Fyrir stuttu var lögreglumaður sakfelldur í Héraðsdómi fyrir að hafa ekið í veg fyrir manninn á Ægissíðu, sama kvöld og hann var dæmdur fyrir að aka of hratt Sæbrautina. Lögreglumaðurinn var talinn hafa stofnað lífi hans í hættu. Maðurinn segir að hann hafi skollið á lögreglubílnum - það sýni framdekkið sem sé kýlt aftur. Eðli rispnanna á hjólinu sanni líka að hjólið hafi ekki runnið eftir götunni, eins og ákæruvaldið hafi haldið fram, heldur aðeins skollið á gangstéttarkantinum eftir að lögreglubílnum var ekið í veg fyrir það. Páll var sýknaður af ákæru um að hafa ekið á ólöglegum hraða þegar lögreglan stöðvaði hann.

Fréttin var uppfærð þann 23. febrúar 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×