Innlent

Handtekinn eftir ólæti í flugvél

Sex íslenskir farþegar voru færðir í hendur lögreglu og var einn þeirra handtekinn við komuna til Kaupmannahafnar í morgun eftir að flugstjóri Iceland Express hafði gert lögreglu viðvart. Farþegarnir höfðu hótað hver öðrum og meðlimum í áhöfn vélarinnar líkamsmeiðingum.   „Það er ljóst að það ástand sem þarna skapaðist var mjög óvenjulegt og okkur þykir mjög leitt að aðrir farþegar okkar hafi þurft að lenda í þessu,“ segir Almar Örn Hilmarsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, í tilkynningu frá flugfélaginu. „Við teljum að okkar fólk hafi brugðist rétt við þessum erfiðu aðstæðum enda þjálfað til að bregðast rétt við þegar atburðir sem þessir verða.“ Starfsfólk Iceland Express mun hafa samband við farþega vélarinnar á mánudag til að bjóða þeim áfallahjálp, en farþegar í vélinni voru 118. Flugfélagið mun leggja fram formlega kæru á hendur farþegunum sex við lögregluna í Kaupmannahöfn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×