Sport

Ólafur í ævilangt bann

Enska knattspyrnusambandið hefur dæmt Ólaf Gottskálksson í ævilangt keppnisbann fyrir að neita að fara í lyfjapróf í janúar síðastliðnum.  Ólafur sem þá var leikmaður Torquay United er fyrsti leikmaðurinn sem bresk íþróttayfirvöld, UK Sport, nafngreina fyrir að brjóta lyfjareglur í Bretlandi sem settar voru í fyrra. Rio Ferdinand leikmaður Manchester United var í fyrra dæmdur í 8 mánaða keppnisbann fyrir að gleyma að mæta í lyfjapróf en UK Sport greindi ekki frá nafninu hans, því var lekið til fjölmiðla. Á fréttavef BBC í morgun kemur fram að talsmaður enska knattspyrnusambandsins hafi óskað eftir því við FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið að bann Ólafs gildi í öllum löndum sambandsins. Michael Bateson stjórnarformaður Torquay segir að Ólafur Gottskálksson hafi verið á æfingasvæði félagsins í janúar þegar breska lyfjaeftirlitið mætti á staðinn.  Eftir að hafa skoðað lista yfir þau efni sem voru á bannlista átti Ólafur að hafa spurt lyfjaeftirlitsmennina hvað myndi gerast ef eitthvert þessara efna kæmu fram í sýni hjá honum.  Þá var honum tjáð að hann væri þar með fallinn á prófinu.  Samkvæmt fréttavef BBC átti Ólafur að hafa tilkynnt lyjaeftirlitinu að hann færi ekki í prófið, pakkaði saman fötum sínum og hefur ekki sést síðan er haft eftir stjórnarformanni Torquay United.  Stjórnformaðurinn segir ennfremur að hann trúi ekki að Ólafur hafi óhreint mjöl í pokahorninu, hann hafi verið meiddur á öxl og hafi líklega tekið lyf vegna axlarmeinsins. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×