Erlent

Afgerandi sigur Mubaraks

Hozni Mubarak, núverandi forseti Egyptalands, vann afgerandi sigur í kosningunum í Egyptalandi, fyrstu frjálsu forsetakosningunum í sögu landsins.   Þegar búið er að telja um helming atkvæða hefur Mubarak hlotið áttatíu prósent atkvæða og þar með tryggt sér fimmta kjörtímabilið á forsetastóli. Andstæðingar hans og kosningaeftirlitsmenn segja að kosningarnar hafi verið óheiðarlegar, að starfsmenn kjörstjórna hafi ítrekað reynt að hafa áhrif á kjósendur auk þess sem ýmiskonar óregla einkennir upplýsingar og framkvæmd. Kosningaeftirlitsmenn segja þetta þó ekki breyta niðurstöðunum þar sem þær séu svo afgerandi. Kjörsókn liggur ekki enn fyrir en allt bendir til að hún hafi verið mjög dræm, eða á milli fimm og tuttugu prósent eftir landshlutum. Kjörsókn í forsetakosningum í Egyptalandi hefur raunar alltaf verið sögð mjög lítil en talið var hugsanlegt að það breyttist í þetta skipti. Ástæðan er sú að áður fyrr valdi egypska þingið einn frambjóðanda og kjósendur gátu bara veitt honum stuðning eða hafnað. Í kjölfar þrýsting innan lands og utan ákvað Mubarak að breyta reglunum í þetta sinn og leyfa öðrum að sækjast eftir embættinu. Talið var öruggt að þetta breytti engu, í það minnsta ekki í þetta sinn þar sem flestir Egyptar þekkja ekkert annað en að Mubarak sé forseti og aðrir frambjóðendur voru næsta óþekktir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×