Sport

Chelsea hugsar um að vinna

Steve Clarke, aðstoðarknattspyrnustjóri Chelsea, vísar því á bug að liðið sé að spila leiðinlegan fótbolta eins og margir vilja meina að liðið sé að gera um þessar mundir og segir að aðalmálið sé að vinna leiki. Chelsea stefnir nú óðfluga á að bæta nokkur met í ensku knattspyrnunni, en liðið á þó enn nokkuð í land með að ná meti Arsenal með 49 leikjum í röð án taps og meti Tottenham Hotspur, sem unnu 11 fyrstu leikina fyrir 45 árum síðan. "Hvernig væri að spyrja stuðningsmenn liðsins hvort þeim finnist við vera að spila leiðinlegan bolta, ég held ég viti hverju þeir myndu svara," sagði Clarke. "Okkur er alveg sama hvað fólk segir, liðið er að vinna hvern leikinn á fætur öðrum og það er það sem telur. Við spilum alveg eins skemmtilegan bolta og hvert annað lið," bætti hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×