Viðskipti innlent

Óbreytt lánshæfismat Glitnis

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's tilkynnti í gær að lánshæfismat Glitnis (A-/Stable/A-2) héldist óbreytt þrátt fyrir að lánshæfismatsfyrirtækið hefði breytt horfum fyrir íslenska ríkið í neikvæðar úr stöðugum (Lánshæfiseinkunn íslenska lýðveldisins í erlendri mynt'AA-/A-1+'; í íslenskum krónum 'AA+/A-1+').

Í frétt frá Kauphöll Íslands segir að í tilkynningu Standard & Poor segi að þeir þættir sem hafa áhrif á breytt mat á íslenska ríkinu hafa þegar verið teknir með í lánshæfismati Glitnis.

Þá kemur fram að matið á Glitni endurspegli sterka stöðu bankans á innanlandsmarkaði og bætta dreifingu í eignasafni bankans með vaxandi starfsemi í Noregi og, síðan í maí 2006, í Svíþjóð. Þá er bent á þann góða hagnað sem verið hefur í rekstri bankans á liðnum árum og gæði eignasafnsins.

„Þar sem landfræðileg fjölbreytni og vöruframboð samstæðunnar hafa aukist, endurspeglar lánshæfismatið væntingar S&P um að arðsemi Glitnis verði áfram góð, þrátt fyrir að efnahagsumhverfi á Íslandi kynni að verða síður hagstætt með hugsanlegu hærra útlánatapi og lægri gengishagnaði. Ákvörðun um lægra lánshæfismat gæti orðið ef versnandi efnahagsástand á Íslandi leiddi til töluverðar rýrnunar á eignasafni bankans," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×