Viðskipti innlent

Landsbankinn selur í Straumi-Burðarás og Gretti

Landsbanki Íslands hefur selt 6,76 prósenta hlut sinn í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf til fjárfestingafélagsins Grettis hf. á genginu 17,3. Virði hlutanna nemur rétt rúmum 12 milljörðum króna. Þá keypti Landsbankinn 9,9 prósenta hlut í TM af Gretti hf. á genginu 41. Landsbankinn seldi sömuleiðis allan hlut sinn í Gretti ehf. eða alls 35,39 prósent.

Í tilkynningu um viðskiptin segir að eignarhaldsfélagið Hansa ehf., sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, keypti þar af 33,6 prósent. Kaupverð hlutar Hansa ehf. er um 6,3 milljarðar króna og miðast við markaðsvirði undirliggjandi eigna Grettis á kaupdegi en þær eru að stærstum hluta í skráðum félögum í Kauphöll Íslands.

Með sölunni á hlutum sínum í Straumi-Burðarási lýkur afskiptum Landsbankans af einu helsta umbreytingarverkefni síðari tíma í íslensku atvinnulífi sem hófst þegar bankinn ásamt öðrum festu kaup á HF Eimskipafélagi Íslands í september 2003, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×