Yfirmaður mannréttindamála Sameinuðu þjóðanna, Louise Arbor, sagði í dag að írösk yfirvöld ættu að flýta sér varlega í að uppfylla dauðadóminn yfir Saddam Hússeins þar sem málsmeðferðin hefði ekki verið fyllilega sanngjörn.
„Við höfðum áhyggjur af réttmæti niðurstöðunnar í fyrsta réttarhaldinu og það þarf að rannsaka niðurstöðu áfrýjunardómstólsins áður en dómnum verður framfylgt til þess að hægt sé að fullyrða að farið hafi verið yfir öll atriði." sagði Arbor í yfirlýsingu í dag.
Hún sagði nauðsynlegt að réttarhaldið og dauðadómurinn væru trúverðug og sérstaklega í máli eins og þessu. Hún tók einnig fram að Saddam hefði samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum leyfi til þess að áfrýja dómnum til viðeigandi yfirvalda.