Erlent

Fjársjóðsskip vekur deilur

Rannsóknarleiðangurinn Greg Stemm og Tom Dettweiler skoða pening úr skipsflakinu Svarta svaninum.
Rannsóknarleiðangurinn Greg Stemm og Tom Dettweiler skoða pening úr skipsflakinu Svarta svaninum. MYND/AFP

Spænsk stjórnvöld hafa lagt fram kæru hjá dómstól í Bandaríkjunum vegna skipsflaks sem bandaríska fyrirtækið Odyssey Marine Exploration hefur fundið og hirt fjársjóð úr. Fjársjóðurinn er sagður vera rúmlega þrjátíu milljarða króna virði.

James Goold, lögfræðingur spænsku stjórnarinnar, segir að fjársjóðurinn tilheyri Spánverjum ef skipið var spænskt eða ef það liggur á hafsbotni í spænskri landhelgi. Fyrirtækið hafi ekki fengið leyfi frá spænskum stjórnvöldum til að bjarga eða fjarlægja skipið.

John Morris, framkvæmdastjóri bandaríska fyrirtækisins, fullyrðir að skipið, sem sagt er heita Svarti svanurinn, hafi ekki fundist í spænskri landhelgi. Fyrirtækið fullyrðir að skipið hafi fundist í Atlantshafinu utan allrar lögsögu, en hefur þó ekki viljað gefa upp nákvæma staðsetningu.

Fyrirtækið fullyrðir að fjársjóðurinn, 500 þúsund gull- og silfur­peningar, sé ekki kominn úr breska skipinu HMS Success, sem liggur í Gíbraltarsundi. Fyrirtækið hafði fengið leyfi spænskra stjórnvalda til að leita að því skipi.

Fyrirtækið hefur hins vegar hvorki staðfest né neitað fréttum um að þetta skip sé annað breskt skip, Merchant Royal, sem sökk í slæmu veðri úti af ströndum Englands árið 1641.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×