Erlent

Stærsti turn heims er á við sjö Hallgrímskirkjur

Burj- turninn í Dubai er orðinn hæsta bygging heims, þrátt fyrir að framkvæmdir á honum muni ekki taka enda fyrr en undir lok næsta árs.



Skýjakljúfurinn er 512 metrar á hæð, fjórum metrum hærri en Taipei 101 turninn í Taívan, sem hefur verið hæstur síðustu þrjú ár. Burj-turninn er á hæð við sjö Hallgrímskirkjur.



Ríkisrekna verktakafyrirtækið Emaar Properties í Sameinuðu arabísku furstadæmunum heldur upplýsingum um endanlega hæð Burj-turnsins leyndum.



Svo gæti farið að turninn verði yfir 693 metrar að hæð, eða rúmlega níu sinnum hærri en Hallgrímskirkja. Í turninum verða 160 hæðir, 56 lyftur, lúxusíbúðir, sundlaugar og útsýnispallur á 124. hæð.



Bygging skýjakljúfsins hefur þó ekki gengið snurðulaust fyrir sig, en í mars í fyrra gerðu verkamenn uppreisn og mótmæltu lágum launum sínum.



Faglærðir smiðir fengu rétt rúmlega 500 krónur á dag í laun og óbreyttir verkamenn 350 krónur.



Í óeirðunum ollu verkamennirnir rúmlega 61 milljónar króna tjóni. Flestir af verkamönnunum fjögur þúsund eru Indverjar.



„Turninn er tákn þess að Dubai er heimsborg," sagði Greg Sang, yfirmaður verksins. Borgin er auðug af olíulindum og hefur hagnast gríðarlega að undanförnu.



Bygging skýjakljúfsins gæti kostað um 60 milljarða króna, en hann þekur um tvö hundruð hektara svæði, sem er um 1.200 milljarða virði. Turninn mun sjást úr 100 kílómetra fjarlægð, að sögn verktakanna. Verkið hófst fyrir 1.277 dögum og hefur gengið hratt fyrir sig. Á köflum hefur heil hæð verið reist á þremur dögum.



„Það er staðreynd lífsins að einhvern tímann mun einhver annar byggja hærri byggingu," segir Sang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×