Erlent

Dreymdi eigandann nóttina eftir fornleifafund

Harald Haraldsson fann spjótsodd frá miðöldum þegar hann gróf fyrir brunni í Laxárdal.
Harald Haraldsson fann spjótsodd frá miðöldum þegar hann gróf fyrir brunni í Laxárdal. Mynd/Magnús A. Sigurðsson

Framkvæmdir við vatnsveitu leiddu til þess að Harald Haraldsson, bóndi á Svarfhóli í Laxárdal, skammt frá Búðardal, fann heillegan spjótsodd á dögunum. Ekki er vitað um aldur oddsins, en hann hefur nú verið sendur á Þjóðminjasafnið.

„Við vorum að grafa ofan í uppsprettu til að setja niður brunn, við sáum oddinn þegar hann kom upp í skóflunni. Hann var ryðgaður, en samt ótrúlega heill,“ segir Harald. Hann segir að augljóst hafi verið að þarna hafi verið eitthvað merkilegt á ferð, og að oddurinn væri gamall.

„Mig dreymdi svo nóttina eftir karl með skaftið, sem vantaði oddinn á, en hann kynnti sig ekki,“ segir Harald.

Hann hafði samband við Fornleifavernd ríkisins. „Ég passaði mig bara að setja brunninn niður fyrst svo þeir gætu ekki stoppað það af,“ segir Harald.

Magnús A. Sigurðsson, minjavörður á Vesturlandi, sótti oddinn. Hann segir ólíklegt að fleiri fornminjar leynist í jörð þar sem oddurinn fannst, auk þess sé nú búið að raska svæðinu svo mikið að ekki sé hægt að ganga úr skugga um það.

Hann segir að mögulega hafi einhver fornmaður brotið spjótið sitt, eða oddurinn endað á þessum stað fyrir einhverjar sakir, en ólíklegt er að þarna hafi verið kuml. Oddurinn sé líklega frá miðöldum, og hann verður aldursgreindur á Þjóðminjasafninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×