Skoðun

Fyrir fólkið eða fjárfestana?

Ögmundur Jónasson skrifar
Um miðja næstu viku fer fram á Alþingi önnur umræða um fjárlög, nánar tiltekið næstkomandi fimmtudag. Þá kemur í ljós að hvaða marki fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður breytt frá upphaflegum drögum. Ætla má að ríkisstjórnin komi saman til fundar nú yfir helgina til að ráða ráðum sínum um það efni. Mun hún hlusta á varnaðarorð Magnúsar Péturssonar, forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss?

Í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í síðustu viku sagði hann að „ónóg fjárframlög til opinberu heilbrigðisþjónustunnar munu óhjákvæmilega leiða til þess að fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar flytjast út fyrir almannatrygginguna og einkarekin starfsemi eflist og einkasjúkratryggingar bjóðast. ... Afgreiðsla Alþingis á fjárlögum fyrir árið 2008 mun gefa tóninn."

Eftir því sem ég hef komist næst hefur framlag til Landspítala háskólasjúkrahúss ekki aukist að raungildi undanfarin sjö eða átta ár. Ríkisendurskoðun hefur af þessu tilefni fagnað mikilli framleiðniaukningu á sjúkrahúsinu. Það þýðir að hagrætt hafi verið en í sumum tilvikum hefur það verið á kostnað starfsfólksins. Í ályktun nýafstaðins aðalfundar BSRB er einmitt varað við þeirri stefnu: Ef hægt eigi að vera að manna sjúkrahúsin, stofnanir fyrir fatlaða, löggæsluna og aðra grunnstarfsemi í samfélaginu verði að draga úr álagi á starfsfólk og greiða því betri laun. Krafa stjornvalda um enn meiri „framleiðniaukningu" er tilræði við velferðarkerfið. Landspítalinn þarf að fá milljarð til viðbótar núverandi fjárlagatillögu til að halda í horfinu! Sama gildir um aðrar stofnanir sem hér hefur verið vísað til.

Ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð? Eða er hún staðráðin í því að brjóta niður velferðarþjónustuna til að byggja hana upp að nýju, einkarekna og rándýra? Afgreiðsla komandi fjárlaga er prófsteinn á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Er hún fyrir fólkið eða fjárfestana?

Höfundur er formaður BSRB og alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×