Gilbert Arenas skoraði 51 stig, þar af sigurkörfu með þriggja stiga skoti um leið og flautan gjall, þegar Washington lagði Utah af velli í NBA-deildinni nú í kvöld, 114-111.
Þetta er í þriðja sinn sem Arenas skorar yfir 50 stig í leik og hafa þeir allir komið á þessari leiktíð. Á síðustu tveimur mínútum leiksins í kvöld skoraði Arenas þrjár þriggja-stiga körfur og hitti úr þremur vítaskotum - alls tólf stig. Það var með öðrum orðum honum að þakka að Washington hafði betur í leiknum.
Caron Butler skoraði 21 stig fyrir Washington en hjá Utah var Mehmet Okur í miklu stuði og skoraði 38 stig - það mesta sem hann hefur nokkru sinni skorað.