Dunga, þjálfari brasilíska landsliðsins í fótbolta, segir að Ronaldinho sé vissulega í áætlunum sínum með liðið þrátt fyrir að hann hafi ekki spilað nema einn leik fyrir þjóð sína frá HM í Þýskalandi síðasta sumar. Fjölmiðlar og almenningur í Brasilíu höfðu haft áhyggjur af því að Dunga og Ronaldinho ættu ekki samleið en þjálfarinn hefur nú vísað því algjörlega á bug.
“Það er ekkert vandamál á milli okkar. Eina vandamálið er það sem fjölmiðlar búa til,” sagði Dunga í gær. “Ronaldinho er brasilískur og svo sannarlega í áætlunum okkur. En það geta aðeins 11 leikmenn spilað og það verða fleiri að fá tækifæri.”
Brasilía tapaði fyrir Portúgal í vináttuleik á miðvikudag, en það var fyrsta tap Dunga í þeim sex leikjum sem hann hefur stjórnað landsliðinu í. Ronaldinho lék ekki með liðinu vegna meiðsla.