Erlent

Íhuga að malbika tunglið

Getty Images
Vísindamenn kanna nú mögulega hættu sem geimförum stafar af því að anda að sér tunglryki. Rannsókn bendir til þess að smæstu agnir tunglryks gætu verið eitraðar en sannreyna á kenninguna með tilraunum á músum. NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna hefur sett saman rannsóknarteymi sem á að kanna málið og komast að niðurstöðu fyrir fyrirætlaða tunglferð árið 2020. Geimfarar sem fóru til tunglsins á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar kvörtuðu margir undan mæði vegna ryksins sem settist í geimbúninga þeirra og mengaði vistarverur þeirra í tunglflaugum. Tunglryk inniheldur agnarsmá korn, umtalsvert minni en svifryk jarðar. Smæstu agnirnar eru úr gleri og járni og svo smáar að þær fara beint út í blóðrásina sé þeim andað inn. Ef nægilegt magn þessara agna leysist upp í blóði gæti það haft svipuð áhrif á líkamsstarfsemina og kolmónoxíðeitrun. Þá á að kanna möguleikann á því að senda ómannaðar flaugar á undan tunglförunum sem hefðu það hlutverk að malbika lendingarstaði fyrir tunglflaugar og koma þannig í veg fyrir að jafn mikið af ryki þyrlist upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×