Sex íslamskir öfgamenn voru hengdir fyrir sprengjuárásir í Bangladesh í morgun. Þeir voru dæmdir fyrir árásir víða um landið árið 2005.
Að sögn lögreglu voru tveir mannanna forsprakkar andspyrnuhópa. Mennirnir sex voru ekki líflátnir á sama stað, heldur í fangelsum víða um landið.
Á meðan réttarhöldum yfir mönnunum stóð sögðu þeir að árás á dómara í landinu í nóvember 2005 hefði verið gerð vegna þess að dómskerfið fylgir ekki Sharia lögum, eða lögum Islam. Fjöldi sprengjutilræða var gert við dómara og dómshúsum í landinu. Í ágúst 2005 voru 500 sprengjur sprengdar víðsvegar í landinu á einum klukkutíma.
Hæstiréttur hafnaði áfrýjun mannanna seint á síðasta ári og forsetinn Iajuddin Ahmed neitaði að sýna mönnunum miskunn.
Lögreglan óttast hefndaraðgerðir vegna aftakanna í morgun. Það er talin ástæða þess að mennirnir voru líflátnir fyrirvaralaust á mismunandi stöðum.