Leiðtogar í Zanu stjórnmálaflokknum sem er ráðandi í Zimbabwe íhuga í dag hvort þeir eigi að styðja Robert Mugabe forseta til endurkjörs á næsta ári.
Mugabe hefur lýst yfir eindregnum áhuga á að halda áfram í embættinu. Hann er hins vegar undir miklum þrýstingi frá hópum innan flokksins að hætta og enda þannig stjórnmála- og efnahagskreppuna í landinu.
Leiðtogar í sunnanverðri Afríku samþykktu að forseti Suður-Afríku Thabo Mbeki skyldi hvetja til stjórnmálaumræðu innan Zimbabwe. Í fréttatilkynningu lýstu þeir yfir samstöðu með forsetanum. Þeir hvöttu einnig vestræn ríki að láta af refsiaðgerðum og að Bretland greiddi fyrir uppskiptingu landareigna.
Á fréttavef BBC segir að fréttaskýrendur telji orðalagið eiga að höfða til Mugabe. Það hljóti að vera sem tónlist í eyrum hans.
Stjórnarandstöðuflokkurinn MDC sem berst fyrir lýðræðislegum umbótum hefur lýst yfir vonbrigðum með fundinn. Hann segir vandamál Zimbabwe, stjórnaróreiðu og mannréttindabrot vera sök Mugabes.