Erlent

Reggie rúllað upp

Tveggja metra langur krókódíll sem hefur læðupokast um fylkisgarð í úthverfi Los Angeles í Bandaríkjunum var handsamaður í gær. Það voru skriðdýrasérfræðingar og þjóðgarðsverðir sem yfirbuguðu dýrið eftir mikla glímu.

Í marga mánuði hefur dýrið, sem er án efa vinsælasta skriðdýr borgarinnar, falið sig fyrir ljósmyndurum og aðdáendum. Þeir hafa safnast saman daglega við vatn í garðinum í von um að sjá þennan fræga krókódíl.

Talið er nær öruggt að þetta sé krókódíllinn Reggie sem tekist hefur að flýja fangara í um tvö ár. Hann var að sóla sig á girtu svæði þegar hann fannst. Hliðinu var lokað og sérfræðingar snöruðu hann. Sex menn börðust við skepnuna þangað til að þeir gátu lokað skoltinum á honum með límbandi.

Reggie var síðan fluttur í dýragarð og fylgdu sjónvarpsþyrlur honum eftir á leið sinni um hraðbrautina á háannatíma.

Reggie er ólöglegt gæludýr sem óx svo mikið að eigendur réðu ekkert við hann. Honum var kastað í vatn í garðinum fyrir um tveimur árum. Þegar hann sást svo fyrst í vatninu í ágúst árið 2005 varð hann strax stórstjarna, enda í Hollywood.

Nú má búast við því að hann verði settur í sóttkví í 30 - 60 daga. Margar vikur getur tekið að kynna hann fyrir öðrum krókódílum í dýragarðinum.

Áður en krókódílafangarinn Steve Irwing dó var hann búinn að bjóðast til að aðstoða við leit og handsömun á Reggie.

Heimamenn nefndu dýrið Reggie án þess að vita hvaða kyn hann væri. Hann hefur nú þegar verið innblásturinn af einu lagi og tveimur barnabókum. Einnig hafa verið gerðir óteljandi t-bolir með myndum af Reggie.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×