Engan sakaði þegar skúta með fimm manns um borð, strandaði á skeri í Skerjafirði um klukkan átta í gærkvöldi. Lögreglubátur og bátur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu voru sendir á vettvang og tókst að losa skútuna af skerinu.
Hún var síðan dregin til hafnar í Kópavogi, þar sem vélin hafði bilað við strandið. Að öðru leyti mun skútan vera lítið skemmd. Í áhöfninni voru fjórir nemar í siglingum og kennari þeirra.