Erlent

Ódýrara er auga en augu

Að kanna möguleika á þrívíddarlíkönum út frá tvívíðum myndum er tiltölulega óplægður akur innan sviðs tölvusjónar en það er nákvæmlega það sem Erlingur er að gera.
Að kanna möguleika á þrívíddarlíkönum út frá tvívíðum myndum er tiltölulega óplægður akur innan sviðs tölvusjónar en það er nákvæmlega það sem Erlingur er að gera. MYND/ANTON

Erlingur Brynjúlfsson rafmagnsverkfræðingur kláraði nýverið meistaraverkefni sitt. Verkefni hans fólst í að meta þrívíða hreyfingu útlima mannskepnunnar með aðeins einni myndavél.

„Þetta var ekki auðvelt verkefni því það eru svo takmarkaðar upplýsingar sem fást með tvívíðri mynd úr einni myndavél," segir Erlingur. „Oftast er notast við tvær eða fleiri myndavélar til að ná þrívíddinni en það fælist mikill sparnaður í að geta notast við bara eina vél."

Aðferð Erlings byggist á því að punktar eru festir á ákveðna staði á mannslíkamanum. Myndatökuvél tekur mynd af hreyfingum líkamans og fylgir um leið hreyfingu punktanna eftir. Reiknilíkan reiknar svo út hreyfinguna í þrívídd.

Niðurstöður Erlings voru nokkuð jákvæðar en hann segir að enn sé nokkuð í að aðferðin sé fullkláruð. „Ég vona að í framtíðinni nýtist tæknin til dæmis í göngugreiningu og einnig tölvuleikjagerð þegar gera þarf módel af hreyfingu manna," segir Erlingur. „Það að geta reiknað út þrívídd með einni myndavél, nær hvaða myndavél sem er í rauninni, yrði mun hagkvæmara en þær aðferðir sem notast er við í dag svo kostirnir yrðu ótvíræðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×