Erlent

Allt að gerast um borð í Endeavour

Áhafnarmeðlimur Endeavour, Rick Mastracchio, á geimgöngu
Áhafnarmeðlimur Endeavour, Rick Mastracchio, á geimgöngu MYND/nasa

Geimfarar um borð í geimskutlunni Endeavour eru lagðir af stað í aðra geimgöngu sína á Alþjóðageimstöðinni. Erindi þeirra er að skipta um einn af snúðvísum stöðvarinnar. Ráðgert er að geimgangan vari í sex og hálfa klukkustund. Fjórar geimgöngur eru áætlaðar.

 

Á meðan liggja vísindamenn Nasa á jörðu niðri yfir gögnum um skemmdir sem urðu á hitaskildi Endeavour þegar hún þaut út um lofthjúp jarðar. Í gær var sérstökum armi, búinn geisla, beitt til að skanna skemmdirnar. Enn er óvíst hvort viðgerða sé þörf en skemmdir sem þessar geta skapað hættu við endurkomu til jarðar. Ef ráðist verður í viðgerðir gæti það kostað mikla fyrirhöfn og tíma sem átti að fara í að endurbæta Alþjóðageimstöðina. Skemmdirnar urðu þegar froðuköggull losnaði af eldsneytistanki ferjunnar, rúmri mínútu eftir lofttak hennar á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×