Körfubolti

Leikmaður Breiðabliks slasaðist í umferðarslysi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Cornett, leikmaður Breiðabliks.
Tony Cornett, leikmaður Breiðabliks. Mynd/Heimasíða Breiðabliks/GFG

Bandaríkjamaðurinn Tony Cornett slasaðist í umferðarslysi síðastliðið föstudagskvöld og verður hann ekki með í næsta leik Breiðabliks á föstudag.

Cornett var í bíl sem var á leiðinni til Reykjavíkur frá Þorlákshöfn þar sem Blikar léku á föstudaginn síðastliðinn. Cornett var farþegi í bílnum ásamt tveimur öðrum og var fluttur í sjúkrabíl til Reykjavíkur.

Hann hefur ekkert æft síðan að þetta átti sér stað. „Hann hefur verið hjá sjúkraþjálfara í vikunni," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Blika. „Hann fékk eitthvað í bakið. Það er alltaf einhver óvissa sem fylgir bakmeiðslum en hann ætlar að reyna að æfa í kvöld. Við sjáum svo til með framhaldið."

Breiðablik er í efsta sæti 1. deildar karla með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Cornett hefur farið mikinn í upphafi móts og hefur skorað 29 stig að meðaltali í leikjunum þremur og tekið níu fráköst.

Einar Árni segir að tímabilið hafi byrjað vel en á næstu vikum verða andstæðingarnir sífellt erfiðari.

„Við eigum í nóvember Ármann/Þrótt, KFÍ, FsU og Val en þetta virðast vera þau lið sem koma til með að berjast um sæti í efstu deild við okkur."

Breiðablik mætir Ármanni/Þrótti í Smáranum á föstudaginn klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×