Skoðun

Fagra Ísland – dagur sex

Ögmundur Jónasson skrifar
Sannast sagna hafði ég vonað að ég þyrfti aldrei að skrifa grein undir þessari fyrirsögn. Eins og menn muna er samkvæmt umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, sem ber heitið Fagra Ísland, ekki gert ráð fyrir frekari stóriðjuuppbyggingu þar til heildstæð áætlun um náttúruvernd liggur fyrir.

Í kosningabaráttunni var hamrað á því að næstu fimm árin yrði stóriðjuhlé ef Samfylkingin kæmist til valda. Nú brá svo við eftir kosningar að þessi stefna var grafin og gleymd. Hver dagur svikinna loforða rak annan. Skrifaði ég nokkrar greinar í Fréttablaðið sem tölusettu dagana sem Samfylkingin sveik kosningaloforð sín í umhverfismálum. Í lok júní gerði ég hlé á þessu bókhaldi en þá var ég kominn í fimm svikadaga. Á fimmta deginum var það sjálfur umhverfisráðherrann, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem átt hafði senuna en þá hafði hún verið spurð á Stöð 2 hvort ríkisstjórnin ætlaði ekki að hlutast til um hvernig Landsvirkjun svaraði ósk Alcans um framlengingu á raforkusamningi vegna stækkunar í Straumsvík. Umhverfisráðherra kvaðst alls ekki myndu gera það enda væru Landsvirkjun og Alcan „bara fyrirtæki á markaði eins og önnur fyrirtæki og þau verða bara að ná sínum samningum eins og aðrir". Svona talaði umhverfisráðherra sem kosinn var á þing vegna fyrirheita um stóriðjuhlé í fimm ár.

Þessi afstaða til gjörða Landsvirkjunar var harla undarleg í ljósi þess að Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og lýtur forræði kjörinna fulltrúa hennar, þar á meðal umhverfisráðherra og annarra handhafa stefnu Samfylkingarinnar sem kjörnir voru í nafni Fagra Íslands. Síðan gerist það á fimmtudaginn í síðustu viku að upp rennur enn einn dagurinn í svikasögu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Þá hafnar umhverfisráðherra kæru Landverndar vegna álverksmiðju í Helguvík. Umhverfisráðherra kvað sína eigin ákvörðun um að hafna kærunni ekki vera sér að skapi. En svona væri þetta bara, hún gæti hugsað sér að breyta stjórnarskránni.

En hvernig væri að reyna að breyta stefnu ríkisstjórnar sem Samfylkingin á aðild að og standa þannig við þau fyrirheit sem kjósendum voru gefin fyrir síðustu alþingiskosningar?

Höfundur er þingmaður.




Skoðun

Sjá meira


×