Skoðun

...aldrei á meðan við ráðum einhverju

Ögmundur Jónasson skrifar
Fyrir skömmu fór fram á Alþingi umræða um einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar. Til sérstakrar umfjöllunar að þessu sinni var útboð á heilli legudeild á Landspítalanum, nánar tiltekið á deild fyrir heilabilaða á Landakoti. Allt var með hefðbundnum hætti við þessa umræðu. Guðlaugur Þór, heilbrigðisráherra, sagði ekkert í reynd vera að gerast og fulltrúar Samfylkingarinnar tóku undir með honum: Ekkert nema gott eitt að gerast.

Ég hef grun um að mörgum þyki þessi málflutningur farinn að hljóma nokkuð undarlega, ekki síst eftir að tíðari gerast viðtöl við talsmenn fyrirtækja sem eru að hasla sér völl á sviði heilbrigðisþjónustu og bjóða þar þjónustu einsog um hverja aðra verslunarvöru væri að ræða. Læknismenntaður talsmaður Heilsuverndarstöðvarinnar ehf kom þannig fram í fréttaþætti nýlega til að kynna „pródúkt" og „vöruframboð" hjá nýrri línu fyrirtækis síns. Þessi nýja sölulína hefði fengið heitið „velferðarþjónustan". Nýjasta „pródúkt" þar væru á sérstökum afslætti til gullkorta- og platínkortahafa Kaupþingsbanka. Talsmaðurinn sagði að þetta væri pródúkt „sem hefði ekki verið til á markaði hingað til."

Tungutakið er greinilega að breytast í takt við breytingarnar innan heilbrigðisþjónustunnar. Sjúklingur er ekki lengur sjúklingur heldur viðskiptavinur og aðhlynning heitir nú vara eða pródúkt. Talsmenn Samfylkingarinnar eru þessum breytingum annað hvort samþykkir eða þeir eru blindir á umhverfi sitt. Hið síðarnefnda hygg ég að eigi við um Ellert B. Schram, alþingismann. Hann sagði við fyrrnefnda utandagskrárumræðu: „Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar verður aldrei innleidd hér á landi meðan við ráðum einhverju."

Ég held að þessi tiltekni þingmaður sé einlægur velferðarsinni. En skyldi hann hafa hugleitt hvort kunni að vera réttara, að Samfylkingin komi ekki auga á hvað er að gerast, eða hitt að flokkkurinn ráði engu um framvinduna?

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×