Körfubolti

Verður Nick Bradford kannski bara rólegur í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bradford leikmaður Grindavíkur.
Nick Bradford leikmaður Grindavíkur. Mynd/Daníel

Nick Bradford hefur farinn mikinn í báðum leikjum sínum í DHL-Höllinni í vetur, var með 27 stig í undanúrslitaleik Subwaybikarsins og skoraði 38 stig í fyrsta leik liðanna í lokaúrslitunum. Það hefur þó ekki dugað því Grindavík hefur tapað báðum leikjunum. Þriðji leikur lokaúrslita KR og Grindavíkur í Iceland Express deild karla hefst klukkan 19.15 í DHL-Höllinni í kvöld.

Þessir tveir stórleikir Nick hafa ekki dugað til sigurs og Grindavík hefur gengið mun betur í heimaleikjunum þar sem ekki hefur farið eins mikið fyrir Nick.

Nick Bradford er með 34,5 í framlagi í tapleikjunum tveimur á móti KR en hans framlag í sigurleikjunum er upp á 20,5 eða 14 framlagsstigum lægra.

Nick er með 32,5 stig og 9,0 fráköst að meðaltali í töpunum þar sem hann hefur tekið 21,0 skot að meðaltali og fengið alls 19 vítaskot. Nick er hinsvegar með 15,5 stig og 6,5 fráköst að meðaltali í sigrinum þar sem hann hefur tekið 14,0 skot að meðaltali og fengið alls 5 vítaskot.

Nick hefur aðeins tekið eitt þriggja stiga skot í sigurleikjunum en er búinn að hitta úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum (55,6 prósent) í tapleikjunum.

Þó að það hljómi fáránlega þá er kannski betra að Nick Bradford verði kannski bar rólegur í leik kvöldsins og gefi öðrum leikmönnum liðsins pláss til þess að blómstra við hlið hans ætli Grindvíkingar að vinna sinn fyrsta leik í DHL-Höllinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×