Íslenski boltinn

Þór/KA vann Lengjubikarinn - fyrsti stóri titill norðanstelpna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Hönnudóttir tryggði Þór/KA sigur í Lengjubikarnum í dag.
Rakel Hönnudóttir tryggði Þór/KA sigur í Lengjubikarnum í dag.

Þór/KA tryggði sér í dag sigur í Lengjubikar kvenna eftir 3-2 sigur á Stjörnuni í úrslitaleik í Kórnum. Það var fyrirliði liðsins Rakel Hönnudóttir sem skoraði sigurmarkið í blálokin.

Þetta er í fyrsta sinn sem Þór/KA vinnur stóran titil í kvennafótboltanum en liðið hefur unnið b-deild deildabikarsins undanfarin þrjú tímabil.

Björk Gunnarsdóttir og Inga Birna Friðjónsdóttir komu Stjörnunni tvisvar yfir í leiknum en Mateja Zver jafnaði í bæði skiptin. Mateja Zver var að leika sinn fyrsta leik með Þór/KA í ár.

Seinna markið skoraði Mateja Zver beint úr aukaspyrnu eftir að Sandra Sigurðardóttir,markvörður Stjörnunnar, hafði verið rekin útaf fyrir að taka boltann með hendi fyrir utan teig.

Rakel skoraði síðan sigurmarkið í uppbótartíma eftir að hafa fengið góða sendingu frá Vesnu Smiljcovic. Rakel skoraði einnig sigurmarkið í 1-0 sigri Þór/KA á Breiðabliki í undanúrslitunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×