Fótbolti

Xavi: Verð aldrei leiður á að heyra Barcelona-liðinu hrósað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi og félagar fagna marki í Meistaradeildinni í vikunni.
Xavi og félagar fagna marki í Meistaradeildinni í vikunni. Mynd/AFP

Xavi, spænski landsliðsmiðjumaðurinn hjá Barcelona, segir að Barcelona-liðið sé að byrja tímabilið betur en í fyrra og að pressan á liðinu, eftir að það vann þrennuna í fyrra, sé ekki að hafa nein áhrif á liðið. Liðið hafi ekkert slakað á og hafi unnið alla leiki sína til þessa á tímabilinu.

„Ég vona að allar efasemdir séu nú úr sögunni. Ef við berum saman þetta tímabil við tímabilið í fyrra þá er ljóst að þau byrja keimlík en ég þori alveg að segja það að við séum jafnvel að byrja betur í ár en við gerðum á síðasta tímabili," sagði Xavi.

„Við erum líka með sama leikkerfi og sömu fótboltahugsun inn á vellinum. Ég verð aldrei leiður á því að heyra menn hrósa okkar liði því það er miklu betra en að hlusta á gagnrýni og niðurrif," sagði Xavi kátur.

Barcelona náði ekki nema einu stigi út úr fyrstu tveimur deildarleikjum sínum í fyrra en liðið hefur unnið alla fimm deildarleiki sína í ár með Svíann Zlatan Ibrahimovic og Argentínumanninn Lionel Messi í fararbroddi í framlínunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×