Körfubolti

Fannar: Erum komnir stutt á veg

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fannar Ólafsson.
Fannar Ólafsson.

Stjarnan vann KR í kvöld í baráttunni um titilinn meistarar meistaranna í DHL-höllinni í kvöld. Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, sagði eftir leik að Vesturbæjarliðið eigi enn töluvert í land.

„Við erum bara komnir mjög stutt á veg því miður. Við erum með algjörlega nýtt lið í höndunum og það sást í þessum leik að við eigum eftir að stilla saman strengi okkar," sagði Fannar.

„Við vorum mjög óskipulagðir í flestu sem við gerðum. Við höfum samt fínan leikmannakjarna og það mun koma í ljós þegar á líður. Við ætlum ekkert að vinna titilinn í október, hann vinnst ekki fyrr en á næsta ári."

En hvað var jákvætt við leik KR í kvöld? „Finnur (Magnússon) spilaði vel og það er mjög jákvætt. Brynjar (Þór Björnsson) spilaði eins og herforingi og ég veit að þetta verður hans tímabil. Darri var í smá veseni með villur í kvöld en þessir strákar eiga eftir að spila stóra rullu," sagði Fannar.

„Það er mjög skemmtilegt tímabil framundan. Stjarnan er með hörkulið, nánast óbreytt frá því í fyrra þegar þeir urðu bikarmeistarar. Það munar heilmiklu fyrir þá að halda kjarnanum. Þetta verður rosa barátta milli efstu sex held ég."


Tengdar fréttir

Stjarnan vann eftir spennandi viðureign gegn KR

Stjarnan er meistari meistaranna í karlaflokki eftir sigur á KR 80-89 í DHL-höllinni í kvöld. Garðbæingar urðu bikarmeistarar á síðustu leiktíð og lögðu Íslandsmeistarana í þessum árlega leik en hann var fyrirtaks skemmtun fyrir áhorfendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×