Fótbolti

Valdes ekki búinn að gefast upp á spænska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Victor Valdes, leikmaður Barcelona.
Victor Valdes, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / AFP
Victor Valdes, markvörður Barcelona, hefur ekki gefið upp alla von um að vinna sér sæti í spænska landsliðinu fyrir HM næsta sumar.

Valdes var á dögunum kjörinn besti markvörður spænsku úrvalsdeildarinnar fyrir síðasta tímabil. Barcelona fékk þá á sig einungis 31 mark í deildinni.

Það er í annað skiptið sem Valdes, sem er 27 ára gamall, hlýtur þessi verðlaun. Hann hefur þó aldrei náð að spila með spænska landsliðinu á sínum ferli.

Iker Casillas hjá Real Madrid, Pepe Reina, leikmaður Liverpool og Diego Lopez, markvörður Villarreal, voru síðast valdir í spænska landsliðið.

„Það eru margir góðir markverðir á Spáni og kemur það því ekki á óvart að ég er ekki í liðinu þó svo að Barcelona hafi unnið þrennuna á síðasta tímabili," sagði Valdes í samtali við spænska fjölmiðla. „Ég hef mikinn áhuga á að fara á HM. Ég mun berjast áfram fyrir því að komast í landsliðið."

Spánn leikur tvo vináttulandsleiki í næsta mánuði, gegn Argentínu og Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×