Körfubolti

Fyrsta tap KR í úrslitakeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brenton Birmingham skoraði 28 stig fyrir Grindavík og var afar öflugur.
Brenton Birmingham skoraði 28 stig fyrir Grindavík og var afar öflugur. Nordic Photos / Getty Images
KR tapaði í kvöld sínum fyrsta leik í úrslitakeppni Iceland Express deild karla er liðið tapaði í Grindavík í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn, 100-88.

Leikurinn var afar góð skemmtun. KR byrjaði betur en Grindavík náði með góðum spretti yfirhöndinni í lok fyrsta leikhluta og lét forystuna aldrei af hendi eftir það, þó svo að oft hafi verið mjótt á mununum.

Næsti leikur liðanna verður á fimmtudaginn, skírdag, í DHL-höllinni.

Leik lokið: Grindavík - KR 100-88

Frábær leikur að baki. Fyrir hlutlausa körfuboltaunnendur eru gríðargóðar fréttir að fá minnst fjóra leiki í rimmu þessara tveggja frábæru liða.

Stig Grindavíkur:

Brenton Birmingham 28 (8 fráköst, 6 stoðsendingar)

Nick Bradford 14

Þorleifur Ólafsson 14 (11 fráköst)

Helgi Jónas Guðfinsson 12

Guðlaugur Eyjólfsson 11

Páll Kristinsson 10

Páll Axel Vilbergsson 7

Arnar Freyr Jónsson 4

Stig KR:

Jason Dourisseau 22 (15 fráköst)

Helgi Már Magnússon 21 (10 fráköst)

Jón Arnór Stefánsson 16 (12 stoðsendingar, 7 fráköst)

Jakob Sigurðarson 11

Fannar Ólafsson 8

Pálmi Freyr Sigurgeirsson 3

Brynjar Þór Björnsson 3

Skarphéðinn Ingason 2

Darri Hilmarsson 2

4. leikhluti: Grindavík - KR 100-88 (0:14 eftir)

Brenton nýtir síðara vítið og Brynjar misnotar skot fyrir KR í næstu sókn. Brenton aftur á vítalínuna og setur bæði niður. Þetta er búið.

4. leikhluti: Grindavík - KR 97-88 (0:23 eftir)

Páll Axel fer á vítalínuna og setur bæði niður. Munurinn orðinn tólf stig sem er líklega of mikið fyrir KR. En Dourisseau setur niður þrist og heldur lífi í leiknum fyrir KR.

4. leikhluti: Grindavík - KR 95-85 (0:33 eftir)

Misnotuð vítaskot hjá Grindavík en ruðningur í næstu sókn KR. Spennan er gríðarleg og sekúndurnar eru gríðarlega lengi að líða. Jón Arnór brýtur svo nokkuð illa á Arnari sem setur bæði niður fyrir Grindavík, sem vinnur boltann strax aftur. Mikill hiti í mönnum og Nick Bradford er brjálaður. Leikhlé.

4. leikhluti: Grindavík - KR 93-85 (0:58 eftir)

Skarphéðinn á vítalínuna og hann nýtir bæði fyrir KR. Arnar Freyr á línuna hinum megin og hann skorar sín fyrstu stig í leiknum - sem er ótrúlegt þar sem Arnar hefur átt mjög góðan leik. Jón Arnór keyrir svo upp að körfu, setur niður skot og fiskar villu. Nýtir ekki vítið.

4. leikhluti: Grindavík - KR 91-81 (1:11 eftir)

Jón Arnór á vítalínuna en nýtir bara annað skotið. Jason var í frákastinu en Páll Axel hafði betur og brotið á honum. Hann nýtir bæði vítin. Munurinn tíu stig.

4. leikhluti: Grindavík - KR 89-80 (1:25 eftir)

Jakob með þrist. Þorleifur með þrist hinum megin. Jakob með enn annan þrist. Þetta eru allt þristar!

4. leikhluti: Grindavík - KR 86-74 (2:24 eftir)

Grindavík vinnur boltann eftir mikinn klaufagang í sókn KR. Brenton setti niður þrist. Helgi svaraði með öðrum þristi en þá kom Páll Axel með enn annan þrist fyrir Grindavík. Ótrúlegur gangur í þessum leik. Fannar út með fimm villur.

4. leikhluti: Grindavík - KR 80-71 (3:37 eftir)

KR vinnur boltann. Jón Arnór með sína elleftu stoðsendingu í leiknum er hann gefur glæsilega sendingu á Jason sem treður. Þorleifur svarar hinum megin en hann hefur átt stórgóðan leik, sér í lagi eftir að Helgi Jónas fór meiddur af velli fyrr í leiknum.

4. leikhluti: Grindavík - KR 78-69 (4:36 eftir)

Grindavík kemst níu stigum yfir og vinnur svo frákast eftir að síðara vítið hjá Þorleifi klikkar. Tíminn er að hlaupa frá KR-ingum en þetta er svo sem fljótt að breytast.

4. leikhluti: Grindavík - KR 75-69 (5:45 eftir)

Páll Kristinsson farinn af velli með fimm villur. Tveir aðrir Grindvíkingar með fjórar villur - Arnar Freyr og Guðlaugur. Fannar með fjórar villur hjá KR.

4. leikhluti: Grindavík - KR 73-66 (7:55 eftir)

Nú er Grindavík að skjóta sig í gang. Fyrst Þorleifur með þrist og svo Brenton. KR tekur leikhlé.

4. leikhluti: Grindavík - KR 67-66

Brynjar setur niður þrist og munurinn aðeins eitt stig. Grindavík virðist ekki vera að spila vel undir þessari pressu frá KR-ingum þessar mínúturnar.



3. leikhluta lokið: Grindavík - KR 67-63


Tvær sekúndur eftir og KR með boltann í innkasti. Jsaon fær hann og setur niður góða körfu. Munurinn því einungis fjögur stig en fyrir mjög stuttu síðan var munurinn tíu stig.

3. leikhluti: Grindavík - KR 67-61

Arnar Freyr dæmdur brotlegur er Jason Dourasseau fellur í gólfið. Óíþróttamannsleg villa, Jason setur niður bæði vítin og KR fær boltann aftur.

3. leikhluti: Grindavík - KR 65-55

Guðlaugur setur niður þrist úr vonlausri stöðu þegar skotklukkan var að renna út. Tíu stiga munur. Guðlaugur búinn að vera öflugur og er með ellefu stig.

3. leikhluti: Grindavík - KR 62-55

KR-ingar ekki að spila sinn besta leik þessa stundina. Jason Dourisseau er hins vegar búinn að vera magnaður í þessum leik og gefur ekkert eftir. Grindavík refsar grimmt fyrir mistök KR-inga í leiknum og hefur tekið sjö stiga forystu í leiknum.

3. leikhluti: Grindavík - KR 54-48

Síðari hálfleikur hefur farið rólega af stað. Lítið skorað en mikil barátta í teignum. Menn enn að jafna sig eftir rosalegan fyrri hálfleik og ef til vill að hvíla kraftana fyrir lokasprettinn.

3. leikhluti: Grindavík - KR 50-43

Grindavík með fyrstu körfuna í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur: Grindavík - KR 48-43

Ótrúlegur fyrri hálfleikur að baki. KR bætti varnarleikinn sinn undir lokin og það dró saman með liðunum eftir að Grindavík komst í átta stiga forystu. En ótrúlegir taktar, afar umdeild dómgæsla og gríðarlegur hraði hefur einkennt þennan leik.

Stig Grindavíkur:

Brenton Birmingham 12

Helgi Jónas Guðfinsson 9

Guðlaugur Eyjólfsson 8

Páll Kristinsson 7

Nick Bradford 6

Þorleifur Ólafsson 6

Stig KR:

Helgi Már Magnússon11

Jón Arnór Stefánsson 10

Jason Dourisseau 9 (10 fráköst)

Fannar Ólafsson 8

Pálmi Freyr Sigurgeirsson 3

Darri Hilmarsson 2

2. leikhluti: Grindavík - KR 37-34

Grindavík hefur verið að síga hægt og rólega fram úr. Liðið hefur verið að spila öflugan varnarleik og KR neyðst að taka erfið skot.

2. leikhluti: Grindavík - KR 28-28

Þorleifur setti þrist í upphafi leikhlutans fyrir Grindavík en Jón Arnór svaraði með með öðrum þristi. Nick Bradford hvíldur en hann hefur látið mikið til sín taka í leiknum til þessa.

1. leikhluta lokið: Grindavík - KR 25-21

Gæsahúð. Fyrst stelur Brenton boltanum og treður glæsilega líkt og Jason í fyrstu körfu leiksins. Svo vinnur Grindavík boltann þegar lítið er eftir. Brenton bíður fyrir utan, tekur þristinn með mann í sér á lokasekúndunum og setur hann niður. 11-2 sprettur hjá heimamönnum.

Hreint ótrúlegum fyrsta leikhluta er lokið. Þvílíkur leikur.

1. leikhluti: Grindavík - KR 14-19

Ótrúleg tilþrif. Glæsileg sending hjá Jóni Arnóri á Fannar sem treður með stæl. Jón Arnór stelur svo boltanum af Grindavík í næstu sókn heimamanna.

1. leikhluti: Grindavík - KR 12-17

Mikil og flott tilþrif í upphafi leiks. KR komst í 11-4 með þrist frá Helga Má en Brenton svaraði fyrir Grindavík með körfu og villu þar sem hann setti vítið einnig niður.

KR er í smá villuvandræðum. Aðeins fimm mínútur liðnar og Jakob og Fannar strax komnir með tvær villur hvor. Jón Arnór eina.

1. leikhluti: Grindavík - KR 4-6

Fyrstu stig Grindavíkur koma eftir rúmar tvær mínútur. Það er búinn að vera mikill hraði í leiknum en hörkuvarnarleik líka.

1. leikhluti: Grindavík - KR 0-2

KR vann uppkastið en misnotaði fyrsta skot leiksins. Jason Dourisseau stal svo boltanum í fyrstu sókn Grindavíkur, hljóp upp völlinn og tróð með tilþrifun. Góð byrjun á leiknum.

19.11 Velkomin til leiks

Eftir fáeinar mínútur hefst leikur Grindavíkur og KR. Þetta er lykilleikur í einvíginu enda verður verkefnið illráðanlegt ef KR kemst í 2-0 í kvöld og getur þar af leiðandi orðið meistari á heimavelli á skírdag.

Það er því að miklu að keppa fyrir heimamenn sem munu væntanlega leggja allt í sölurnar í kvöld.








































Fleiri fréttir

Sjá meira


×