Rakel Logadóttir átti fínan leik fyrir Val í 4-2 sigrinum gegn Aftureldingu/Fjölni og skoraði fyrstu tvö mörk leiksins á Vodafonevellinum í kvöld.
Rakel segir Valsliðið vera á réttri leið þrátt fyrir að gefa örlítið eftir á lokakafla leiksins í kvöld.
„Við erum alveg á réttri leið á meðan við erum að týna stigin þrjú af hinum liðunum, sama hversu ljót stigin eru þá telja þau alveg jafn mikið. Afturelding/Fjölnir er með fínt lið og er eitt af þessum liðum í deildinni sem er búið að bæta sig gríðarlega mikið. Það hefur bara sýnt sig í sumar að það er enginn leikur auðveldur og lið mega ekki við því að gefa neitt eftir," segir Rakel.
Valur og Breiðablik eru efst og jöfn í deildinni og Stjarnan fylgir þar fast á eftir í þriðja sætinu. Rakel telur að toppbaráttan eigi bara eftir að harðna þegar líða tekur á sumarið.
„Við eigum klárlega eftir að mæta grimmar til leiks í toppbaráttuleikina sem framundan eru og spila betur en við gerðum í kvöld. Eigum við ekki bara að segja að við séum búnar að taka út lélegasta leikinn okkar í sumar. Það á annars mikið eftir að gerast í toppbaráttunni en við erum bjartsýnar á framhaldið," segir Rakel en Valur mætir Breiðabliki og KR í næstu leikjum sínum í Pepsi-deildinni.