Körfubolti

Hlynur: Betra liðið vann einvígið

"Ég held að heilt yfir hafi betra liðið unnið þessa seríu," sagði Hlynur Bæringsson, spilandi þjálfari Snæfells, eftir að hans menn féllu úr leik í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar fyrir Grindavík í kvöld.

"Við vorum í vandræðum á móti pressunni þeirra og töpuðum allt of mörgum boltum. Það er ekki hægt að vinna Grindavík ef maður tapar svona mörgum boltum. Svo vorum við að klikka illa á vítalínunni - aðallega ég - og það var dýrt," sagði Hlynur í samtali við Stöð 2 Sport.

Hann er þokkalega ánægður með veturinn, sem reyndist Snæfellsliðinu erfiður eins og mörgum öðrum liðum í kreppunni.

"Ég er kannski ekki ánægður nákvæmlega núna, en ég held að við getum verið ágætlega sáttir við veturinn. Við gerðum okkar besta úr erfiðum vetri, en það hefði kannski verið betra að hafa einhvern annan að þjálfa okkur," sagði Hlynur.

Hann hallast að sigri KR í lokaúrslitunum. "Ég vona að þetta fari í fimm leiki. KR-liðið er mjög gott og með tvo bestu menn landsins að mínu mati í þeim Jóni Arnóri og Jakob Sig og þeir spila mjög grimmt. Grindavík á samt alveg möguleika ef Páll Axel spilar vel. Grindavíkurliðið er mjög gott líka," sagði miðherjinn sterki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×