Körfubolti

Páll Axel: Það er alltaf gaman að heyra í mönnum

Páll Axel Vilbergsson
Páll Axel Vilbergsson Mynd/Rósa

Stórskyttan Páll Axel Vilbergsson segist ekki eiga von á að fara frá Grindavík þó hann hafi nýlokið við þriggja ára samning sinn við félagið.

Páll Axel var næststigahæsti íslenski leikmaðurinn í Iceland Express deildinni í vetur með rúm 19 stig að meðaltali í leik.

Grindavíkurliðið fór alla leið í lokaúrslit deildarinnar þar sem það tapaði fyrir KR með minnsta mun.

Grindvíkingar hafa nú samið við flesta af sínum helstu mönnum, en Páll Axel hefur enn ekki framlengt samning sinn.

"Það er nú sennilega bara út af slórinu í mér sem við erum ekki búnir að setjast niður og ræða þetta, en við munum væntanlega gera það fljótlega," sagði Páll Axel þegar hann var spurður út í samningaviðræðurnar.

Við spurðum hann hvort hann hefði orðið var við áhuga annara liða í sumar.

"Nei, það hefur enginn hringt í mig en það er alltaf gaman að heyra í mönnum og spjalla um daginn og veginn," sagði Páll í gamansömum tón, en bætti við að hann ætti ekki von á að fara frá Grindavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×