Skoðun

Hverju einustu krónu til baka

Auðmenn Íslands sem gert hafa þjóðina nánast gjaldþrota eru sjálfir ekki á flæðiskeri staddir. Það virðist alla vega eiga við um þá marga. Reglulega berast fréttir af stórfelldu braski þeirra, myndir af eignum bæði hér á landi og erlendis. Þetta er okkur sagt á sama tíma og verið er að hlaða skuldaklyfjunum upp á bakið á skattgreiðendum næstu ár og jafnvel áratugi vegna Icesave-lána Landsbankans.

Ekki er lengra síðan en í apríl síðastliðnum að Björgólfur Thor Björgólfsson var sagður í hópi þrjátíu ríkustu manna á Bretlandseyjum. Þótt hann hafi eins og aðrir misst hlut sinn í Landsbankanum þegar bankinn hrundi þarf ekkert að efast um að eignir hans og annarra auðmanna eru enn gríðarlegar. En enginn veit hverjar raunverulegar eignir þessara manna eru. Enginn nema innvígðir fá heldur að vita hvað komið hefur út úr rannsóknarskýrslum endurskoðunarfyrirtækja á aðdraganda bankahrunsins um hvort lög hafi verið brotin.

Framkvæmdastjóri Fjármálaeftirlitsins segir að almenningur fái hugsanlega útdrátt úr skýrslunum þegar „fagmenn" hafa farið yfir þær. Það er að segja: kannski. Stundum er engu líkara en valdamenn þessa lands séu að hvetja til uppreisnar í landinu. Almenningur sem á að borga brúsann fær kannski - kannski! - að vita hvað það er sem honum verður gert að greiða fyrir.

Krafan er allt upp á borðið, allar upplýsingar opinberaðar, allar eignir þeirra auðmanna, sem ábyrgir eru fyrir hruninu, verði fundnar og séð til þess að hver einasta króna í þeirra fórum verði látin ganga upp í skuldir áður en þjóðin verður látin blæða. Er til of mikils mælst?

Höfundur er alþingismaður.






Skoðun

Sjá meira


×