Körfubolti

Friðrik: Allir með og engar afsakanir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur. Mynd/Daníel

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, segir að allir helstu leikmenn liðsins verði með gegn KR í kvöld og að það dugi nú engar afsakanir.

Helgi Jónas Guðfinsson þurfti að fara af velli í þriðja leikhluta í síðasta leik liðanna eftir að hafa staðið sig vel og þá hefur Páll Axel Vilbergsson verið tæpur vegna meiðsla. Þeir verða þó báðir með í kvöld.

„Ég held að þetta sé allt í góðu. Það er búið að tjasla öllum saman og það verða allir með í kvöld. Það verður svo bara að koma í ljós hvort það heldur hjá þeim en við verðum að tefla því fram sem við höfum. Það duga engar afsakanir," sagði Friðrik í samtali við Vísi.

„Helgi Jónas hefur verið tæpur fyrir síðustu tvo leiki en ég vil helst nota hann mikið í kvöld. Hann er afar mikilvægur leikmaður í okkar liði. Hann dettur þá bara í sundur ef það gerist en það munu allir gefa allt sem þeir eiga í kvöld."

Staðan í rimmu liðanna um Íslandsmeistarartitilinn er 1-1 eftir að bæði lið hafa unnð á heimavelli. Reyndar hefur KR ekki tapað í 21 leik á heimavelli í vetur og segir Friðrik að þeir ætli að breyta því í kvöld.

„Það er gríðarlega mikilvægt að komast í 2-1 í seríunni og eiga því möguleika á að klára þetta á heimavelli á laugardaginn. Þetta er sennilegast einn mikilvægasti leikurinn í seríunni."

„En við höfum aldrei spilað vel á þeirra heimavelli. Gott dæmi um það var fyrsti leikurinn. Við spiluðum illa og þeir spiluðu flottan körfubolta. Í næsta leik náðum við svo að spila okkar leik og unnum."

„Við erum með bullandi sjálfstraust eins og alltaf. Aðalmálið í kvöld verður að spila góðan varnarleik og stöðva þá. Við þurfum svo að taka skynsamlegar ákvarðanir í sókninni og fá ekki hraðaupphlaupin í bakið á okkur."

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×